30.4.2007 | 15:14
Einstæð með ófeðrað barn!
Ég er einstæð móðir með ófeðrað barn! Hef þó búið með barnsföður mínum í hartnær 10 ár! Hann sinnt öllum sínum föðurskyldum við stúlkuna, tekið þátt í rekstri heimilisins, og þar að auki, að kaupa íbúðina sem við höfum búið, "með mér"! Það var á vordögum 1998 sem við létum skrá okkur í sambúð, vorum þá búin að búa saman í tæpt ár! Á hinu herlega ári 2001 fæddist okkur stúlkubarn, í byrjun árs! Stúlkan skírð og réttfeðruð hvað okkur hjónaleysin varðaði, en annað átti eftir að koma á daginn! Kerfið reyndist okkur nefnilega "ósammála"! Allt fór í tjón og tjöru með barnabætur og vaxtabætur á hverju vori! Mér ofgreitt, síðan rukkuð til baka um haustið! Hann fékk ekkert að vori, en smáaura að hausti! Ég hringdi ár eftir ár og bað um leiðréttingu! Mætti eitt árið niður á einhverja stjórnsýsluskrifstou, og skrifaði undi einhverja hauga af pappírum í þríriti, um að ég væri í sambúð, með feðrað barn! Ekkert mál sögðu kerfiskarlarnir, búið að leiðrétta og afgreiða málið! Jamm! Allt hékk á sömu spýtunni næsta ár á eftir! Þá hreinlega gafst ég upp, og sætti mig við aum örlög mín sem "einstæð móðir með ófeðrað barn"!
Svo var það, að karlinn minn verslaði okkur eina góða ferð til Kanarí, þann 28. febrúar síðastliðinn! Að sjálfsögðu voru vegabréfin okkar löngu útrunninn, og auk þess þurfti að koma litlu manneskjunni á "spjöld sögunnar", sem íslenskur ríkisborgari með fullgilt vegabréf! Við afhendingu vegabréfanna, kom smá babb upp á bátinn! Hafði ég "slysast" til að tiltaka karlinn minn sem "forráðamann" yfir stúlkunni okkar, ásamt mér sjálfri, í vegabréfsumsókn hennar! Fóru nú allir starfsmenn vegabréfaumsókna í mergjaða flækju, og kallaði hver annan til, og ræddu "hrikalegt vandamálið" sín á milli! Niðurstaðan varð sú, að biðja mig um að gefa karli mínum og föður stúlkunnar, "leyfi" í þríriti að sjálfsögðu, til að vera "forráðamaður hennar" með mér á meðan utanför stæði! Minn maður varð alveg rasandi, þreifandi öskuillur! Enda mættur á svæðið með okkur, að ná í vegabréfin! Sagði stúlkuna sitt barn, og sem slíkur hlustaði hann ekki á svona rugl! Þurfti ég þá allt í einu ekki að gefa honum leyfið, og mín litla kona fékk sitt vegabréf með kurrt og pí!
Þarna var mínum manni nóg boðið, og ákvað að leiðrétta málin "endanlega"! Tók sér hálfsdags frí úr vinnu, og gekk í málin af hörku! Fór á ótal umsýsluskrifstofur, skrifaði undir skrilljón pappíra, "alla í þríriti", um að hann væri faðir 6 ára dóttur sinnar, að hann hefði búið og byggi með móður barnsins síðustu 10 árin, á sama stað í sama húsi í sömu íbúð! Hringdi örvæntingafullur í mig í hádeginu, og sagði ekki baráttuna ganga vel við þá kerfismenn! Nú væru þeir að fjasa og þrasa í honum um að skrifa undir "flutningspappíra" fyrir þá stuttu, þess efnis að hún væri "flutt til hans"! En þar sem fólk verður að flytja "frá einum stað" á "annan", voru þeir í bullandi vandræðum, þar sem stúlkan hafði alltaf átt heima "á sama stað" og faðirinn, og reyndar móðirin líka! Ég reyndi að hughreysta minn mann, og sagði að líklega væri kerfið svona "ofurnákvæmt"! Líklega ættu þeir bara við flutning hennar, inn í hennar "eigið herbergi", þegar fóstursonurinn flutti út í fyrrasumar! Mínum manni ekki skemmt! Þverneitaði að skrifa undir svona endaleysu! En þegar upp var staðið, varð hann samt þokkalega ánægður með vinnubrögð þeirra kerfiskarla, og sagði er heim kom, að nú væri þetta í góðum gír hjá okkur!! Við skráð í sambúð, og dóttirin feðruð!
Var svo að fá "barnabæturnar" inn um lúguna! Samkvæmt þeim er ég "enn einstæð móðir"! Þori ekki að bjalla í karlinn minn, og láta hann vita af þessu.....!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.