18.4.2007 | 17:05
Borgin brennur.
Alltaf verið hrifin af gömlum virðulegum byggingum og húsum. Tala ekki um eigi þær eða þau sér langa sögu. Fór í algerlega mínus, þegar sú stutta (þ.e. 6 ára dóttir mín) kveikti á heimilissjónvarpinu núna áðan, og við blasti brennandi miðbærinn í "minni heimaborg"! Er þó hvorki fædd né uppalin hér í borg, og hef aðeins búið hér í Grafarvoginum síðan 1997. En á mínum yngri árum gekk ég í einn herlegan skóla, er M.R. kallast í daglegu tali. Dásamlegur, gamaldags og forpokaður skóli, með mikla sál. Mætti 5 daga vikurnar í þann skóla, í heil 4 ár. Oft á barmi taugaáfalls, með krónískar magabólgur af stressi, vegna skyndiprófs eða svínslegrar ritgerðar sem átti að skilast "helst daginn áður"! En um leið og ég var gengin inn um dyrnar á þessu gamla og virðulega skólahúsi, runnu af mér allar áhyggjur, maginn snarskánaði og mér leið eins og í heimsókn hjá gömlum vini. Húsið "umvafði" mann einhverri hlýju og vellíðan, sem ekki verður útskýrð. Og mér átti eftir að líða svona, í mörgum af gömlu húsunum í miðbæ Reykjavíkur, hvort sem ég fór inn í þau til að versla eða fá mér snarl. Ég velti þessu stundum fyrir mér, hvernig á þessu stæði. Komst að þeirri niðurstöðu, að þessi gömlu hús, hefðu öll "sál"! Eins og aldagömul sagan, ásamt mannlegu samskiptunum innan þeirra, hefði síast á einhvern hátt inn í veggi þeirra og gætt þau "lífi". Og nú brenna þessir "gömlu vinir" mínir frá skólaárum mínum, og mér er þungt um hjartarætur!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.