13.11.2013 | 18:37
Tannatitrandi víruð upplifun.
Háskólabíó virtist nötra þegar húsfreyja,
systir í Þolló ásamt 12 ára djásninu, Svölu (15), Sigga Frey (13) og
Vigranum (10), mættu á svæðið til að fylgjast með
Fitnesmodel-keppni nú nýverið.
Mergjaðar drunur með "RUDDU RUDDI VÍRBASSI"-
músík organdi í eyrum tóku á móti þeim inni í sal.
Tennur í munni húsfreyju byrjuðu að titra....BOMM BOMM BOMM-
takturinn olli henni hrikalegum hjartslætti og
"HLUSTASKEMMANDI VÍRSÖNGUR"
kom af stað hrikalegum stresshnút í maga hennar....
"RUDDU RUDDI VÍRBASSI....BOMM BOMM".
Húsfreyju lá við öngviti af stressi.
Mikið hrikalega var hún orðin FORN og GÖMUL.
Blóðið strax farið að streyma úr eyrum hennar af álagi,
eftir hálftíma setu í salnum.
Sjitt! Hún yrði að reyna að bera sig vel.
Ekki hægt að missa af systurdóttur í modelkeppninni.
Þau hin myndu skammast sín ægilega, ef hún færi að kvarta undan
mús...HÁVAÐ.....GARGANDI ORGINU... "RUDDU RUDDI
VÍRBASSI....BOMM BOMM BOMM"!
Húsfreyja reyndi að kyrra nötrandi tennur sínar, og gjóaði
augum á systur í Þolló við hlið sér....errr...hvar var systir í
Þolló eiginlega?
Var þetta bara úlpan hennar í sætinu...en Nei.
Allt í einu móaði í þjáð andlit systur í vetrarflíkinni.
Systir virtist einhvern veginn skroppin saman í sætinu, úlpa
hennar komin "upp fyrir eyru".
Argvítans eyrnablæðandi bassinn djöflaðist sem aldrei fyrr....
"Váv", stundi systir í Þolló,og galaði síðan: "Nú ætla þeir algjörlega
að tryggja að við verðum endanlega heilabiluð þegar við komum út".
Eða það þóttist húsfreyja skilja og heyra með því að hreinsa mesta blóðið
úr eyrum sér, en mest þó með því að lesa orðin af vörum systur.
Galaði síðan á móti: " Já, og þarna stendur "PLÖTUSNÚÐUR DAUÐANS"
vel varinn af heyrnaskjólum".
Og mikið rétt, sá með tónlistina stóð og reyndi að ná sambandi við
mann upp við sviðið, sem virtist gjörsamlega heltekinn af
því að spila "Candy Crush" í tölvu sinni.
Samskiptin gengu eitthvað stirt hjá þeim tvemur vegna
þess hve oft gargandi tal þeirra var borið ofurliði af
"RUDDU RUDDI VÍRBASSI..BOMM BOMM".
Tólf ára djásnið sat og hafði troðið vísifingrum í eyru sér,
sem og Vigrinn, Sigginn var eitthvað fölur og galaði að
"tónlistin" væri "ekkert spes".
Salurinn var nánast fullur af fólki og sat í rólegheitum
og GARGAÐI saman.
Eftir að fyrstu keppendur í fitness höfðu farið á svið,
hóf smávaxin ljóshærð stúlka á sirka áttunda ári,
og sem sat fyrir miðjum bekk húsfreyju, sína sjálfsagt
reglulegu MARÞON-kvöldgöngu....fram og til baka...
fram og til baka eftir bekknum....húsfreyja og kó
stóð upp....settist niður....stóð upp...settist niður osfr.
alls 17 sinnum. Fínar fitnessæfingar í gangi.
Eftir að fitneskeppendur höfðu lokið að koma fram,
ruddist kona á að giska þrítug eftir bekknum fyrir
ofan húsfreyju og ýtti náfölri unglingsstúlku á undan sér,
sem hélt báðum höndum þétt fyrir eyru sér (.."ein með
eyrnablæðingu, eins og ég" hugsaði húsfreyja samúðarfull),
og gargaði konan nokkur orð við tvo herramenn beint fyrir ofan
húsfreyju: "Ég verð að fara með hana heim, við erum að ÆRAST
hérna".
"En þú kemur aftur og sérð úrslitin"? orgaði annar maðurinn.
"NEI, ég held að ég láti þetta duga í kvöld" gargaði konan
og var síðan horfin á braut með sína eyrnablæðandi dóttur,
og þær sáust ekki meir.
En nú var komið hlé.
Fólk RUDDIST fagnandi út úr salnum, og niður í
blessunarlega tiltölulega hljóðlátan forsalinn.
Þar að vísu mikið skvaldur, en vegna "nýlegra" hlustunarskemmda
flestra áhorfenda kom það ekki að sök.
Var svona meira eins og notalegt "hvískur" í eyrum húsfreyju.
Tólf ára djásnið gaf út yfirlýsingu (tveimur lögum goðsins
Michel Jacksons hafði verið hroðalega misþyrmt inn í sal stuttu fyrir hlé):
"Þeir eyðileggja 80% af sýningunni með þessari hryllilegu músík".
Siggi Freyr skellti út sinni yfirlýsingu: "Ég ætla ALDREI að hlusta á
svona músík aftur"!
Svalan reyndi að vera jákvæð:" En þeir spiluðu þó TVÖ góð lög".
Tólf ára djásnið gaf hvergi eftir: "Já, en þau voru svo hátt spiluð að maður
varla þekkti þau fyrr en í lokin".
"HALLELÚJA" hugsaði húsfreyja. "Við systur erum kannski ekki svo
fornar og gamlar eftir allt, fyrst unga fólkið er líka að brjálast
yfir músíkinni"!
En það var komið að hápunktinum.
Systurdóttir Henný (26) að koma fram á sviðið,
að keppa í fitnesmodel.
Stelpan sú svakalega flott, að gera góða hluti, svo
húsfreyju og systur í Þolló tókst næstum að gleyma
blæðandi eyrum og heilabilun í heilar 10 mínútur.
Og það voru ofboðslega þakklát og hamingjusöm 12 eyru sem
yfirgáfu Háskólabíó upp úr klukkan átta um kvöldið...lemstruð
og með bólgnar hlustir að vísu...en GLEÐIN einskær yfir því
að komast út.
Húsfreyja SLÖKKTI á útvarpinu í bílnum...hafði ekkert með
vesalings starfsfólk Bylgjunnar að gera...en þögnin var æði.
Tólf ára djásnið hringdi í föður sinn og rukkaði eftir mat....og lýsing hennar
á atburðum kvölds hljómaði svona....."Henný var rosaflott, pabbi, en
músíkin var HRÆÐILEG...hvernig...jú, þeir tóku einhver lög og blönduðu þau með..
...þau með... DAUÐA".
Húsfreyja glotti með sjálfri sér undir stýri þó hún væri farin að hafa smá
áhyggjur af því að hafa ekki sloppið með "heilabilun" eftir í kvöldið.
Því í huga hennar ómaði nú jólalag þeirra Baggalúta..."Ég kemst í jólafíling..
klikkaðan jólafíling...( en ó, vei..truflun)...RUDDA RUDDI VÍRBASSI..
...Jólin...jólin....ég kemst í jólafíling"...BOMM BOMM BOMM.
Góðar stundir og hafið það sem allra best á komandi jólaaðventu.
Flokkur: Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 22:34 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.