30.5.2013 | 13:42
Það var og...í andakt og sannleika eða hvað?
Þá er "Jesú" mættur, sprellifandi kátur og hress,
með eiginkonuna hina endurbornu Maríu Magdalenu sér við hlið,
í Ástralíu.
Að vísu hefur kvisast, að þessi María hans Magdalena sé
númer "tvö", af hans eðal spúsum.
Það er að "Jesú" hinn ástralski hafi verið búinn að
sannfæra aðra háheilaga konu um að hún væri
hin eina sanna María Magdalena hans, en það
síðan eitthvað ekki gengið upp hjá þeim.
Sjálfsagt bara smá "tæknileg mistök" í gangi hjá
"þeim guðlega".....áreiðanlega allt myljandi fullt
af "endurfæddum" Biblíukarakterum kringum "Jesú"
þar "down under", svo líklega hefur hann bara ruglast örlítið
í ríminu.
María Magdalena hin fyrsta, þá sjálfsagt bara gömul vinkona hans,
hún Marta til dæmis, systir Lasarusar (his old mate), nema það hafi verið
hin systirin; María, sem laugaði fætur meistarans og þerraði með
hári sínu.
Þá hefur Jesú hinn ástralski, snarlega uppgötvað mistök sín,
þegar María Magdalena hin fyrsta, hóf að baða fætur hans á morgni hverjum
og brúka hárið á sér í handklæðisstað.
ÚPS! Vitlaus María.
Verið snöggur að kippa því í liðinn, sem hann hét Allan John Miller.....eða
nei...Jesú, var nafnið.
En rosalega hefði verið gaman að vera vitni að því þegar
All....afsakið ..Jesú hinn ástralski kom svífandi niður á jörðina í sinu
himneska skýi, samanber : "Þegar hann (Jesú) hafði mælt þetta
varð hann upp numinn að þeim ásjándi og ský huldi hann sjónum
þeirra. Er þeir störðu til himins á eftir honum þegar hann hvarf, þá stóðu
hjá þeim allt í einu tveir menn í hvítum klæðum og sögðu: "Galíleumenn,
hví standið þér og horfið til himins? Þessi Jesús, sem varð upp numinn
frá yður til himins, mun koma á sama hátt og þér sáuð hann fara til
himins" (Postulasagan 1, 9- 11).
Jamm, alltaf missir húsfreyja, ratinn sem hún er, af öllu merkilegu.
En máske hefur einhver náð að taka stórkostlegan trúaratburð þennan
upp á snjallsímann sinn...þá er þetta að sjálfsögðu komið inn á
You-tube, fésið, tístið sem og aðra netmiðla....kommentatröllin á
Visir.is þá sjálfsagt löngu búin að tjá sig um málið af stakri hógværð og
mælskusnilld, á meðan húsfreyja er grænni en allt sem grænt er, og
veit núll og nix og lítið sem ekki neitt um sjálfa "endurkomu Jesú"
nema það sem stendur í frétt þessari.
DÆS.
Rangur maður á röngum stað í vitlausu landi, eru og verða örlög
húsfreyju.
Hún vissi það alltaf, að hún ætti að vera flutt til Ástralíu fyrir löngu.
Hefði getað verið í móttökunefndinni, þegar Jesú sté niður af skýi
sínu.....jafnvel komið til greina sem "kandidat" sem ein af
Maríunum í lífi Jesú?
Sjíss! Alltaf allt of SEIN húsfreyja, ekkert að pæla...mætti halda
að hún hefði FASTA búsetu á hvítu "þokuskýi".
Svífur um í villu og svíma.
En húsfreyja býður Jesú hinn "endurfædda" hjartanlega velkominn aftur til móður jarðar,
og vonar að hann eigi mun huggulegri jarðvist nú, þegar "krossfestingar"
eru ekki lengur "inn" og fáir jarðarbúar kippa sér mikið upp við það, að
einhver gefi það út að hann sé Jesú endurfæddur.
Mesta lagi að hans háæruleiki, Páfinn í Róm, verði allur í tjóni
við tíðindi þessi......svona mergjuð SAMKEPPNI er náttúrulega
gjörsamlega "óþolandi"!
Svo virðist þessi Jesú einnig ansi snjall að "græða" svolítið
á "fortíð" sinni...selur geisladiska og heldur úti námskeiðum...og
tekur þakklátur við öllum "donations", þó slíkt sé að sjálfsögðu
engin skylda þegar hann er annars vegar.
Það muna jú allir "kastið" sem Jesú fékk í bænahúsinu þar sem
hann rak kaupmenn og sölumenn á brott, velti um borðum og
stólum og sagði þá gera hús hans að ræningjabæli.
En það er eins og það var.... allt gengur út á kaupmennsku í dag,
svo vilji nýi Jesú vera "memm", er víst skárra að
koma sér upp nokkrum sölubásum.
Alla vega svona í upphafi vega.
Aldrei að vita nema Jesú hinn ástralski
verði síðan bísna fær í því að "margfalda" mat og drykk, þegar tímar líða, líkt og
kringum árið 30, þegar hann mettaði fimm þúsundir manna með 5
brauðum og tveimur fiskum.
Þá getur hann pakksaddur, velt um sölubásum sínum af einskærri trúargleði...
Góðar stundir í Jesú nafni.
Segist vera Jesús Kristur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Spaugilegt | Aukaflokkur: Trúmál | Breytt 1.8.2013 kl. 11:57 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.