7.3.2013 | 21:19
Mjólkurlaust í Eyjum.
Þetta hljómar ofurkunnuglega í eyrum húsfreyju.
Í Vestmannaeyjum bernsku hennar var iðulega
mjólkurlaust að vetrarlagi í bænum, og oft var
skömmtun á mjólkurvörum í gangi einnig.
Hún man eftir einni lítilli sögu frá vetrinum 1967 eða 1968.
Þá var húsfreyja smávaxin 7 eða 8 ára skotta, grönn og snaggaraleg.
Hún hafði flutt með fjöskyldu sinni í Grænuhlíð 20 árið 1965, og
það sama sumar fluttu tveir glænýir og mjólkurfrekir einstaklingar
inn á heimilið og hertóku móður litlu skotturnar.
Lengi vel græjaði mamman mjólkurþörfina litlu organdi
tvíburasystranna, en að lokum var skrúfað fyrir þá kranana, og þá varð
að fara að treysta á kúamjólkina.
Og mikið mjólkurbarn var litla skottan, en systurnar smávöxnu
náðu alveg að slá hana út í drykkju.
Þá gerðist það, þennan vetur sem iðulega gerðist í Eyjum fyrir gos,
að fyrst kom kolvitlaus lægð með ofurhvassa vestanátt í 2 daga,
en snérist síðan veður snarlega í snarvitlaust austanbál í 3 daga,
til þess eins að fá annan hrikalegan vestanstorm í 3 daga í kjölfarið.
Herjólfur lá í huggulegheitum allan tímann við bryggju í Reykjavík.
Ekkert hægt að fljúga fyrir djöfulgangi í "Kára".
Eyjamenn allir með rauðar veðurbarðar kinnar í garranum,
mjólkurlausir, smjörlausir og kjötlitlir.
Alltaf nóg til af fiski, og tvö bakarí sáu til þess að sjaldan varð alveg
brauðlaust.
En svo var það mjólkin fyrir mjólkurbörnin eftir 8 daga.
Skottan var gerð út af örkinni, út í mjólkurbúðina sem komin
var á Heimagötuna við hornið á Grænuhlíðinni.
Pabbinn var í vinnu niður í Fram, afinn komst hvorki lönd né strönd
í stífum 12 vindstigum vegna bæklunar sinnar í mjöðmum, og múttan varð
að vera heima að tjónka við handóða tætarana, litlu systurnar.
Skottan var dúðuð í öll sín hlýjustu vetrarföt, ullargammosíur, buxur,
lopapeysu, úlpu, kuldaskó, húfu, vettlinga og trefil.
Henni lá við köfnun í öllum fötunum niðri í þvottahúsi, en afinn sem sá
um "dúðunina" vægði henni hvergi.
Með tíkall í buddunni og túkall í úlpuvasanum, rauk hún af stað
vestur eftir Grænuhlíðinni....var eins og að hlaupa á múrvegg.
Svo stíf og sterk var vestanáttin, að skottan fauk tvö skref afturá bak
fyrir hver þrjú fram á við.
Hún varð að skella hökunni ofan í bringu, halla sér fram og láta
höfuðið kljúfa vindinn.
Henni sóttist ferðin vestur í búð, hægt og seint.
Varð að hvíla sig hangandi á ljósastaur af og til,
berjast síðan áfram í keng, vinda upp á sig og skáskjóta sér
áfram út á hlið og jafnvel ganga afturábak.
Lafmóð á innsoginu af mæði tókst henni að lokum að
komast í anddyrið á versluninni.
Kalt vetrarloftið sveið ofan í lungu, svo skottan fór ekki strax inn
í mjólkurbúðina, reyndi að jafna sig og ná andanum.
Fór síðan inn, það klingdi í hurðarbjöllunni.
Afgreiðslukona stóð og snéri baki í skottuna fyrir aftan hátt
afgreiðsluborð.
Skottan gekk að borðinu og beið átekta.
Svo lágvaxinn var hún, að hún hvarf alveg bak við borðið.
Afgreiðslukonan snéri sér við.
Sá engann.
Það gnauðaði draugalega í glugganum sem snéri út að götunni.
"Guð hjálpi mér", sagði afgreiðslukonan skelkuð við samstarfskonu,
sem rétt í þessu kom fram með örfáar fernur af mjólk og setti í
nánast tómar hillurnar, "ég heyrði greinilega einhvern koma inn,
og svo er hér ekki nokkur sála nema við.
Heldurðu að þetta hafi verið draugur"?
"Hvað segirðu, heyrðiru dyrnar opnast"?, hin konan hlessa.
Skottan saug hressilega upp í nefið.
"Aaaaaarrrgh",draugahrædda afgreiðslukonan gargaði upp yfir sig.
Hvíslaði síðan "heyrðiru ekki þetta"?
Samstarfskonan hafði gripið um hjartað, þegar afgreiðslukonan gargaði,
"En hvað, kom þá enginn inn áðan", spurði hún skjálfrödduð.
"Já, ég kom inn, og ég er enginn draugur", skottunni nóg boðið,
og vildi alls ekki vera talin draugur.
Konurnar beygðu sig í snatri yfir borðið, og litu þá beint í hvöss, dökkblá augu
skottunnar sem starði á þær sármóðguð.
Konurnar litu hvor á aðra, aftur á skottuna og síðan skelltu þær upp úr.
Skottan fór að sjá húmorinn í stöðunni, og að endingu skellihló hún líka.
Eftir að hafa rétt fram uppáskrift frá lækni bæjarins að hún Stína í Grænuhlíð 20
þyrfti að fá 2 lítra af mjólk fyrir mjólkurbörnin sín, fékk skottan ekki aðeins
lítrana tvo heldur einnig þriðja mjólkurlíterinn frítt frá draugaskelkuðu
konunum...... "ekki allir sem eru svona skemmtilegir í mjólkurbúðinni",
sagði sú sem hafði talið skottuna draug.
Skottan var bísna ánægð með afraksturinn, og gat nú vippað
sér með góðri samvisku yfir í matvörurnar hinu megin
og keypt sér einn bláan Ópal fyrir túkallinn frá afa...fékk meira að segja afgang.
Og ferðin heim gekk sko aldeilis glatt.
Skottan fauk á hraða vindsins austur Grænuhlíðina, og hefði sjálfsagt
flengst lengst austur á Urðir, hefði þungt innkaupanetið fullt af mjólk,
ekki virkað sem fínasta bremsa.
Afinn hafði verið á útkikkinu eftir skottunni niður í kjallara, og var
fljótur að létta af henni byrðinni.
"Nú fékkstu 3 lítra, þetta hefur gengið vel lambið mitt".
"Já afi, og konurnar í mjólkurbúðinni verða svo glaðar þegar
þær halda að maður sé draugur, og láta mann þá fá miklu meiri mjólk".
Og þar með var skottan rokin upp í eldhús í jólaköku og mjólkurglas
til múttu sinnar.
Afinn fékk engar frekari útskýringar frá sonardótturinni um "draugamálið"
og furðaði sig mjög á svari skottunnar.
Fékk að heyra sólarsöguna viku seinna, þegar veður hafði nokkuð
lægt, og hann komst sjálfur út í mjólkurbúð og hitti afgreiðslukonurnar góðu.
Og þá var hlegið dátt enn og aftur.
Góðir tímar í góðu samfélagi Eyjanna fyrir gos.
En vonandi fer Herjólfur að komast út í Eyjar með mjólkina góðu næstu daga.
Góðar stundir.
Dagvörur að klárast í Eyjum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.