5.3.2013 | 20:43
Þegar mánudagur kemur upp á þriðjudegi....að sitja í súpunni.
Starfskona í eldhúsi var veik.
Forstöðukona félagsmála og allsherjarreddari staðarins
bretti upp ermarnar og spýtti í lófana.
Nú lá á að haska sér við verkin sín, svo hún gæti einnig
annast eldhúsið, þvottahúsið og önnur verk eldhúskonu.
Það var meira en nóg að gera, og stöðugt rennnerí af iðnaðarmönnum
í ofanálag, sem báðu um ýmsar ráðleggingar og aðstoð.
Forstöðukona náði samt að komast í eldhúsverkin, aðeins 10 mínútum
of sein, að undirbúa hádegismatinn.
Hitunarvagnar settir í samband, kveikt á kaffivél, lagt á borð
fyrir 40 manns og já, ekki mátti gleyma að fylla vatnskönnurnar og setja
á hvert borð.
Forstöðukona setti í ofurgír, lét kalt vatn renna í vaskinn og fyllti
fyrstu tvær vatnskönnurnar, skildi vatnið eftir rennandi í vaskinn,
og fór með fullar könnur fram í innri salinn og setti á borðin sem voru fjærst
eldhúsi.
Strax komin biðröð við dyrnar þar inn, og forstöðukona staldraði við og bað
öldungana að hinkra í 10 mínútur, hún væri ekki alveg tilbúin með matinn.
Snéri við fram í eldhúsið aftur.
Hrikalegur vatnsflaumur tók á móti henni.
Hún hafði rekið sig í kranann þegar hún fór með könnurnar,án þess að taka eftir því,
svo nú flæddi ískalt vatnið fagnandi eftir löngu borðinu, niður skápana
og yfir gólfið í áttina að matsalnum, líkt og tær og hjalandi fjallalækur.
Forstöðukona hljóp við fót og skrúfaði fyri kranann.
Þrjátíu borðtuskum dúndraði hún á "stöðuvatnið" á borðinu,
en síðan varð hún að galla sig upp í stígvél og vopnast
moppu og fötu og þurrka upp bévítans "lækinn",
því nánast var "ófært" inn í eldhúsið á blautu og hálu gólfinu.
Mitt í þessum hasar og hremmingum forstöðukonu rambaði bæjarstjórinn inn
eldhúsið með frítt föruneyti, að skoða nýbygginguna.
Hallelúja!
Forstöðukonu lá við að sundla af álagi.
Varð aldeilis um þessa óviðbúnu heimsókn, og fékk léttan taugatitring
í kjölfarið upp á 3,4 á Richter.
En bæjarstjóri glotti og hvarf brátt á braut með fylgdarlið sitt.
Dálítið skjálfandi náði forstöðukona að klára að græja eldhúsgólfið,
og fór í það að flytja þungan súpudallinn í hitavagninn.
KRASH!
BANG!
Argvítans dallurinn rann úr höndum forstöðukonu, skall í gólfið
og súpan rann glettin á braut, sömu leið og "lækurinn" áður.
Altént helmingurinn af henni.
Forstöðukonu lá við örvinglun.
Gólfið var aftur orðið kolófært, nú vegna súpuklísturs, og hún nýbúin að skúra.
Ofursjúkraliðinn mætti sem frelsandi engill, og bauðst til að
þurrka upp súpusullið, svo forstöðukona kæmist í það að opna
fyrir öldungana inn í matsal og skammta matinn.
Gekk nú allt með ágætum í 10 mínútur, öldungar fengu mat, og
ofursjúkraliði kláraði að þurrka upp súpu að mestu.
Ofursjúkraliði deildi út lyfjum og fór síðan að færa þeim súpu
sem vildu, í eftirrétt.
KRASH!
BANG!
Full súpuskálinn virtist snúa sig úr höndum ofursjúkraliða, og skall
í gólfið með látum.
Súpa út um allt gólf.....aftur.
Ofursjúkraliði náði þegjandi í skúringagræjurnar.
Húsfreyja fékk að heyra alla "flóðasöguna" er hún mætti í
hádeginu, og veinaði af hlátri.
Forstöðukona og ofursjúkraliði hlógu með, ekki hægt annað.
Og svona til að halda áfram að létta andrúmsloftið,
mættu rafmagns -og símamenn á svæðið, og rifu allar dyrabjöllur
öldunga úr sambandi.
Ættingjar að reyna að heimsækja sína öldnu foreldra, voru lítt hrifnir
að standa 20 mínútur úti í 7 stiga frosti, við þögular dyrabjöllur,
og hengdu sig aftan í iðnaðarmenn á flandri út og inn, hvenær sem færi gafst.
Mættu síðan ættingjar í lange baner og kvörtuðu...einn bauð húsfreyju að taka
útidyrnar í aðalinnganginum af hjörunum.
Forstöðukona stússaði í kringum ættingja og iðnaðarmenn...
húsfreyja bauðst til að "vígja" fleiri gólf með appelsíni í þetta sinn.... nú eða
að rífa eitthvað úr sambandi áður en hún færi í sáraskiptingu.
Uppskar hlátur og fliss.
Eftir sárastúss og pappírsvesen og spjall við öldunga og ættingja, hvarf
húsfreyja á braut.
Skildi smá pistil eftir handa deildarstjóra um flóðamálið og fleira.
Og endaði pistil með þessu:
Annars ríkir friður í þínum húsum,
þar enginn lengur brynnir músum.
Þar er allt með kyrrum kjörum
og hurðar hanga enn á hjörum.
Alltaf gaman í vinnunni hjá húsfreyju.
Góðar stundir.
Flokkur: Spaugilegt | Breytt 21.3.2013 kl. 18:02 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.