23.janúar 1973-Nóttin eina enn og aftur.

gen18  Niður á höfn er undarlegt andrúmsloft,

  klukkan hálf fimm að morgni.

  Þarna eru flestir íbúar Vestmannaeyja mættir.

  Undarleg ró yfir mannskapnum.

  Mamma fer í það að skera niður epli sem hún dregur

  upp úr veski sínu, og gefur okkur systrunum.

  Við systurnar maulum eplið og horfum

  á allan mannfjökldan í kring.

  Pabbi er kominn á spjall við vini og kunningja.

  Slitur af samræðum þeirra fullorðnu berast til eyrna minna:

  "Trúir þú þessu"?

  "Alveg er þetta furðulegt".

  "Fórstu upp að gosstöðvunum"?

  "Sástu hvar gossprungan lá"?

  "Gott að veðrið snérist, annars hefði þetta staðið

  beint yfir bæinn".

  "Já, og heppni að bátarnir voru ekki farnir út,

  það var búið að ræsa klukkan fjögur".

  Ég sé af og til krakka sem ég þekki,

  bekkjarfélaga, krakka úr Grænuhlíðinni

  með foreldrum sínum í mannmergðinni.

  "Það eru allir hér" hugsa ég, "en afhverju"?

  "Hvað erum við að gera hér", ég velti þessu fyrir mér

  stutta stund, og einnig  hví sumir eru að brasa við

  að koma sér um borð í fiskibátana.

  Lögreglan er aftur farin að gala í gjallarhornið.

  Ég er furðu lostin. 

  Það er verið að segja okkur öllum að

  fara upp í fiskibát, því við eigum að fara upp á land.

  "En mamma, ég á að fara reikningspróf á morgun

  í skólanum", ég ekki alveg að ná utan um alvarleika

  málsins, "ég get ekki skrópað í það".

  Mamma slær á þessa þanka mína.

  "Við eigum öll að fara upp á land, Sigga mín,

  það verður enginn hér til þess að mæta í

  reiknispróf upp í skóla, hvorki nemendur né

  kennarar".

  Ég melti þessar upplýsingar.

  Jú,fínt að fá frí í skólanum og sleppa prófi, en

  allt í einu er komin ægileg hugsun í kollinn á mér

  samhliða.

  Svo ógurleg og óttaleg er hún, að ég kýli hana af grimmd niður.

  NEI!

  Pabbi sem hefur skroppið frá í nokkrar mínútur,

  kemur blaðskellandi.

  "Komið þið, við förum með Danska Pétri upp á land,

  og áhöfnin vill endilega koma okkur í káetu".

  Pabbi vinamargur meðal sjómanna.

  Hugsunin hræðilega reynir aftur að þrengja sér

  upp í vitund mína.

  NEI!

  ÞETTA VERÐUR Í LAGI.

  Okkur er skellt upp í Danska Pétur.

  Og fáum káetu, erum heppin.

  Erum 10 saman í fjögurra manna káetu.

  Við fjórar mæðgurnar, ung kona með

  fjórar stelpur á aldrinum 9. mánaða til 10 ára.

  og síðan tengdafaðir ungu konunnar, mikið

  hjartveikur maður, rúmlega sjötugur.

  Við byrjum á því að fara upp á dekk, þegar

  siglt er af stað.

  Eldsprungan blasir við frá Víkinni, líkt og risavaxið

  blæðandi sár á eyjunni okkar, nema "blóðið" storkar

  aðdráttaraflinu og streymir "upp"!

  Þegar við komum nær gosstöðvunum, fer sjórinn

  að sjóða næst landi, og yfir okkur rignir

  sjóðandi heitt gjall sem brennir okkur í andlitið.

  "Brjálað" hugsa ég og klíp mig enn og aftur í handlegginn.

  Og hugsunin frá því á bryggjunni sprengir sig upp í vitund mína,

  þessi sem ég vil alls ekki hugsa, því hún er svo ægileg.

 eldfell-volcano-eruption-1973-westman-islands-iceland Ég stend sem lömuð með heitan vikurinn á kinnum

  mínum og skelfilega öskrandi vitneskjuna í huga mér:

  " Ég  kemst ALDREI heim aftur! 

 ALDREI AFTUR HEIM".

  Pabbi kemur okkur aftur niður í káetu.

  Við látum frá okkur öll teppi niður í lest, þar mikið

  af fólki sem þarfnast þeirra meira í ískulda nætur.

  Allir eru sjóveikir í káetunni, nema ég og litla

  níu mánaða stúlkan sem sefur undir lítilli barnasæng

  í kojunni hjá mér.

  Það er kalt.

  Ég get ekki sofið fyrir kulda og skrýtnum

  hugsunum.

  Móðir stúlknanna fjögurra er fárveik, og kallar stöðugt

  eftir litla barninu sínu, er með litlu 3-4 ára stúlkuna hjá

  sér í koju, sem ælir lítið og sefur sem betur fer vært.

  Mamma reynir að róa hana, elsta dóttir sín gæti þeirrar litlu.

  Ég er hrædd um að hjartveiki maðurinn, sem situr upp

  við dogg við lítið borð

  og stynur stöðugt og líður djöfullega, geti dáið.

  Mamma reynir að róa mig, um leið og hún hendist

  á milli sjóveikra barna og fullorðinna með ælupoka,

  vatn að gefa að drekka, þar til henni verður illt sjálfri

  og skríður upp í koju til systra minna, en þá erum við

  aðeins 30 mínúta stím frá Þorlákshöfn.

  Pabbi kíkir inn af og til, og athugar hvernig okkur farnast.

  Er sjálfur á fleygiferð um allan bát að aðstoða sjóveikt fólk.

  Við erum stödd í rúmlega sex tíma martröð, og sagan er

  enn ekki öll sögð.

 -------------------------------------------

   Hér verður húsfreyja að láta slag standa í bili, er á leið í Hörpuna á

  tónleikana "Yndislega Eyjan mín".

  Meira næst.

  Góðar stundir.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband