23.janúar 1973- Nóttin eina.

 hbefore  Minning- 1.

  Við systurnar stöndum ásamt afa, Guðmundi á Eiðum og

  mömmu á pallinum fyrir framan

  kjallaradyrnar á Grænuhlíð 20.

  Mamma heitir Kristín Anna, og er Reykvíkingur,

  en búin að búa í Eyjum frá árinu 1959.

  Við erum komnar í kargþykkar lopapeysur

  og vetrarúlpur, systurnar, en afi er gráklæddur

  frá toppi til táar og hefur dregið sixpensarann

  vel niður yfir efsta hluta eyrnanna.

  Það er kalt.

  Og þó að klukkan sé aðeins rúmlega fjögur

  að nóttu, eru öll hús í botnlanganum uppljómuð,

  fólk, börn og öldungar á ferli.

  Það á að vera niðamyrkur, fyrir utan daufa lýsingu

  af  ljósastaurunum tveimur í botnlanganum, en í staðinn

  stafar sérstæðri rauðri birtu frá austri á allt umhverfið.

  Mér finnst allt eins og draumkennt, en samt svo ofur

  skarpt og skýrt utandyra.

  Lögreglubíllinn með sitt hjáróma gjallarhorn

  "Allir íbúar Vestmannaeyja beðnir að fara niður að höfn"

  er að fjarlægjast, og hverfur síðan við hornið á Landagötu.

  Mamma, ræðir við Dóru hans Magga múr á númer 22,

  en við hin horfum öll yfir Baldursbráarhólinn hans afa,

  til norðurs.

  Þar norður af húsi Alla á símstöðinni, númer 23,

  er brattur hóll, vinsæll á veturnar hjá okkur krökkum

  í götunni þá snjóað hefur, að renna sér á sleðum og leika sér.

  Við höfðum fyrst öll heyrt torkennilegan hávaða, sem

  yfirgnæfði sérkennilegar drunurnar frá eldgosinu, en síðan ber

  ógurlega sjón fyrir augu okkar.

  Kýrnar af Kirkjubæjunum koma á stökki, já á stökki

  niður hólinn, líkt og veðhlaupahestar.

  Hljóðin sem blessuð dýrin gefa frá sér, nísta inn að

  merg og beini.

  Þær öskra af hræðslu.

  "Hvað er að gerast"? spyr ég afa.

  "Er enginn maður með þeim, afi"?

   Afi horfir hvössum augum á eftir vesalings dýrunum.

  "Jú, það hlýtur að vera" svarar afi í sama mund og við sjáum

  hvar tveir karlmenn koma á harðahlaupum eftir síðustu

  kúnum.

  "Þær eru svona hræddar, blessaðar", afi ekkert nema

  gæðin, þegar dýr eru annars vegar.

  Pabbi, Siggi á Eiðum, skyndilega kominn með reiðhjólið sitt.

  Vippar stórum svörtum poka upp á stöngina á hjólinu,

  og segir okkur að Berti og Nancy á númer 19 ætli að

  skutla okkur niður á bryggju.

  Pabbi læsir húsinu og við röltum þessi 15 skref

  út á horn, þar sem Austurhlíðin mætir Grænuhlíðinni.

  Vindurinn er nístingskaldur í vetrarnóttinni.

  Erla hans Friðriks á númer 18 hóar í okkur.

  "Guð, trúir þú þessu, Stína"?

  Mamma kveður nei við.

  Berti er mættur í hópinn.

  Nágrannarnir í Grænuhlíðinni spjalla svolítið um

  atburði næturinnar.

  Við systurnar horfum á rauðan himininn í austri,

  og síðan í kringum okkur á þennan skrýtna bjarma

  sem litar öll húsun í kringum okkur ljósrauð.

  Heyrum háværan hvíslandi þyt í bland við þungar drunur.

  Okkur er vippað upp á pall á vörubílnum hans Berta.

  Mamma fer inn í bílshúsið með Berta og Nancý,

  pabbi og afi eru með okkur stelpunum á palinum,

  ásamt Magga, barnabarni Berta og Nancýjar.

  Berti ekur út Grænuhlíðina, beygir til vinstri upp

  Heimagötu og síðan aftur til vinstri inn á Austurveginn.

  Á veginum upp á Kirkjubæi fer hann fram hjá Vilpunni,

  en stöðvar síðan vörubílinn á lágri hæð á veginum,

  þar sem gossprungan blasir við.

  Við hoppum niður af vörupallinum.

  Jörðin nötrar undir fótum okkar, og það er

  undarlegur hiti sem berst til okkar með vindinum.

  Við stöndum þögul og horfum á ægilegt sjónarspil

  náttúrunnar.

  Eldsprungan þeytir upp úr 6-8 gígum logarauðum

  strókum tugi metra upp í himininn.

  Kirkjubæina ber við eldinn.

  Það er eitthvað fáranlegt við þetta allt saman.

  "Helgafell er jú löngu "útdautt" eldfjall", hugsa ég og

  klíp mig í fjórða sinn í handlegginn, til að vera viss um

  að ég sé vakandi.

  Allt í einu skelfur allt og nötrar af fítonskrafti.

  Jörðin rifnar út frá báðum endum gossprungunnar,

  eins og örþunnt blaðsnifsi.

  Og nýir eldstrókar þeytast upp.

  Ég tel.

  Tíu....tuttugu.....33 strókar.

  Allt rennur saman í eina ógnar langa sprungu.

  Ég hætti að telja.

  Hitinn og drunurnar hafa tífaldast.

  Skyndilega er ég orðin ógnarsmá.

  Líkt og sandkorn á óendanlegri strönd eilífðarinnar.

  Og úthafsaldan er á leiðinn inn.

  Hér er mannshöndin einskis megn.

  Ég lít á mömmu og segi henni frá þessum þönkum mínum.

  Mamma er sama sinnis, og segir:

  "Við þessa krafta ræður enginn mannlegur máttur".

  Berti skynjar einnig þetta ógnarafl, og segir kominn

  tíma á akstur niður á bryggju.

  Pabbi er enn í miklu adrenalínsstuði, gerir að gamni

  sínu og reynir að fá okkur til að brosa.

  -------------------------------------------------

   Í tilefni af því að 40 ár eru frá gosi í Eyjum, ætlar húsfreyja að

  rita nokkra pistla um þá lífsreynslu sína, svona minningarbrot

  hennar frá NÓTTINNI EINU.

  Svo meira næst Wink.

  Eyjamenn NÓTTARINNAR EINU, til lukku með að hafa lifað af!

  Góðar stundir.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband