6.1.2013 | 17:30
HRIKALEGA ÞUNG BORÐTUSKAN...
...á heimili húsfreyju, datt með skell í gólfið.
Húsfreyja svitnaði og fékk tár í augun af sársauka.
Hafði orðið það á að grípa argvítans borðtuskuna
með "hægri hendi" til að þurrka upp skömmina
eftir "vinstrihellingu" af kaffi í bolla.
"EKKI AÐ RÆÐA ÞAÐ, KONA" gargaði hægri úlnliður húsfreyju,
bálvondur og gifsaður.
Húsfreyja sár: "En þetta er bara vesæl borðtuska! Á ég þá bara
að hafa kaffislettur upp um allt og út um allt", reyndi að tjónka við
hægri úlnlið sinn.
"HÆTTU AÐ DREKKA ANDSK.... KAFFIÐ, EF ÞÚ GETUR EKKI HELLT ÞVÍ
SKAMMLAUST Í BOLLA", orgaði sá gifsaði sótillur.
Húsfreyja sá að sér, og var kaffilaus næstu tvo daga, eftir
örlagaríku "úlniðsbrotaferðina" í kirkjugarðinn korteri fyrir áramót
"í fyrra".
Þorði í fyrsta sinn í dag, að hella sér aftur í kaffibolla.... og svei henni
ef sá vinstri heili úlnliður, er ekki að verða bísna flinkur við að
hella kaffi í bolla, og síðan koma því rétta leið ofan í húsfreyju.
"VINSTRI SINNAÐI VÆSKILL OG HRÁKA HÆKJA", sá hægri er eitthvað
ekki að gúddera það að vinstri sé að reyna taka störf hans yfir.
"Já, vertu bara í fýlu, góði" húsfreyja, ánægð með sína "vinstri framför og
sjálfsbjargargetu".
Það hnussaði í þeim hægri við húsfreyju....."snarvitlaus kona að ÆÐA
um í kirkjugarði í MYRKRI og HÁLKU, og BRJÓTA "mikilvægasta"
útlim sinn! SVEI"!
Húsfreyja hefur sosum "vissan skilning" á máli þess hægri, og reynir
nú að lyfta engu þyngra en einni "A-4 pappírsörk" með honum.....
fataleppur og viskustykki eru honum til dæmis alveg OFVIÐA.
Borðtuskur og þvottapokar eru út.
Handklæði! Gleymið því!
Renna upp rennilásum! GLÆTAN!
Lyftingar á leirtaui eða hnífapörum- EKKI AÐ RÆÐA ÞAÐ!
Nýfarinn að ná því að klóra nef húsfreyju með þumlinum!
Jamm, ekki laust við að húsfreyja sakni hægri handleggs síns
töluvert MIKIÐ...en hefur svona frekar lágt um það,
því það er ekkert vit að vera að ÆSA þann útliminn frekar upp, með
þeirri vitneskju.
ARFAVITLAUS í skapinu sá hægri, og gjörsamlega óþolandi "sjúklingur"!
Húsfreyja reyndar orðin bísna flink að sópa gólfið með vinstri...
hefur endann á skaftinu undir vanga vinstra megin og þá gengu það glatt.
Þó það líti reyndar út , sem húsfreyja hafi orðið hrikalega "ástfangin"
af sóp sínum, og "vangi grimmt við hann" daglega.
Einnig er sá vinstri orðinn hrikalega snjall að KLÆÐA húsfreyju
í leppa, án þass að blanda þeim hægra hið minnsta í málið.
Aðfarirnar minna að vísu á "gamla svarthvíta kvikmynd" af Houdini
að brjótast úr spennitreyju, en með 11 ára djásnið í kasti af hlátri,
sem eina vitnið, er það bara aukaatriði.
Jamm, og á morgum er sá hægri á leið á Endurkomudeild í
eftirlit og skoðun.
Skipt um gifs sjálfsagt, og skoðað hvort brotin grói ekki rétt.
(Hér dæsti sá hægri af sannri réttlætiskennd).
Húsfreyja er með tengdó sín í vísiteringu, þar sem tengdamútta á einnig
læknisrannsókn á morgun.
Bóndi sér um matseld og allt sem þarf að GERA....nema auðvitað
"vangar" húsfreyja um með sópinn.
Munar um minna .
Góðar stundir og gætið ykkar í hálum kirkjugörðum
Flokkur: Spaugilegt | Breytt 14.1.2013 kl. 18:22 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.