8.11.2011 | 20:47
Af niðurskurði í hreyfifærni.
Húsfreyja lá bakk í bælinu.
Heilaræfillinn hafði að gömlum og góðum sið sent
"ordrur" beint niður á vöðvaliðið í hægri öxl húsfreyju,
og skipað því að reisa kerluna upp, og ýta henni fram úr
rúminu.
RÆS, var boðorð dagsins, enda klukkan að ganga 11 á laugardagsmorgni.
Það var þá sem allt fór til andskotans.
"SETUVERKFALL"! ! , orgaði verkstjóri axlarvöðva
húsfreyju.
"Þetta er er ekki að gera sig hérna hjá
frúnni! Hún er búin að bræða úr öllum
leiðurunum (taugunum) og rústa
helvíska stóra lyftikrananum (aðal-sininni)".
Verkstjórinn spýtti bálreiður á einn reittan "leiðarann" sem sendi frá sér
med det samma, mergjaðar eldglæringar
og krampakenndar bylgju eftir öxl niður í úlnlið og eftir hálsi upp
í haus á húsfreyju.
ÁÁÁ!
Húsfreyju sundlaði af sársauka.
Hefði steinliðið yfir hana ef hún hefði ekki verið útafliggjandi
í rúmi sínu hvort eð.
Hvað var að gerast?
Heilaræfillinn var miður sín, og sendi með hraði
sveit "sjúkraliða" (bólgusvara) niður á hægra axlarsvæðið.
Þar var allt í helvísku báli og brandi, tjóni og tjöru, rúi og stúi.
Aðallyftikraninn var ryðgaður FASTUR í síðustu stöðu, enda búin að
bólgna út í tvöfalda stærð sína.
Leiðarar flestir undir einhverju djö... fargi, klemmdir, óvirkir
og tættir.
Sjúkraliðasveitinni féllust hendur, þegar vöðvaverkstjórinn
ullaði illskulega framan í hana, og sagði henni að
drulla sér aftur upp í stjórnstöð, og láta andskotans
"bossinn" (heilaræfilinn") koma viti fyrir frúna.
"Nú verður frúin að andskota sér
til læknis í einum hvínandi hvelli,
og ekkert djö... "þetta lagast-kjaftæði"!
Vöðvaverkstjórinn var orðinn sótrauður í andliti af vonsku, pirringi
og aðgerðarleysi:
"Þangað til erum við strákarnir farnir í
VERKFALL, og snáfið þið upp!
STRÁKAR! Komið! Við tökum slag
í félagsvist".
Húsfreyju tókst með harmkvælum að koma sér fram
úr rúminu.
Hún var lent í bullandi niðurskurði á hreyfifærni
í hægri öxl, og ekki bara hægri öxl.
Hún var komin með myljandi niðurskurð á
hreyfifærni í hálsi hægra megin einnig.
Jaso.
Nú voru góð ráð dýr.
Húsfreyja skellti í sig einni tveimur bólgueyðandi verkjatöflum.
"Húmbúkk"! , orgaði vöðvaverkstjórinn, og
gaf í næsta spil í félagsvistinni.
Húsfreyja náði í hitapokann sinn með erfiðismunum,
sat í hálftíma með hann á hæ öxl sinni.
"Nú hlyti þetta að fara að lagast".
"Je RÆT"! , vöðvaverkstjórinn leit ekki
einu sinni upp frá félagsvistinni. Var að vinna.
Húsfreyja var í öngum sínum.
Og að drepast í öxlinni.
Heilaræfillinn reyndi að höfða til heilbrigðar skynsemi
sinnar, og laumaði hugmynd um læknisheimsókn
að frúnni.
Húsfreyja hafnaði svoleiðis VESENI samstundis.
Auðvitað hlyti þetta að "lagast".
"DREAM ON, hálfviti" , gargaði
vöðvaverkstjórinn, og trompaði spaðaásinn.
Heilaræfillinn fékk nærri því verki í vinstra heilahvelið af álagi og pressu:
Einhvern veginn varð hann að fá frúna til að fara til læknis:
"Ömm, kæra frú. Afi yðar og faðir
voru báðir gigtarskrokkar, og afinn
meira að segja með hroðalega slitgigt.
Vilduð þér nú ekki vera svo vænar og
skreppa til heimilisdoktorsins og fá
úr því skorið, hvort öxl yðar sé ónýt af
sliti, eða hvort einhverju verði bjargað
með sjúkraþjálfun eða aðgerð"?
Hefði heilaræfillinn verið með hjarta, hefði hann verið með það
í buxunum, svo stressaður og auðmjúkur var hann.
"Hvaða stress er í gangi", húsfreyja var rasandi.
"Þó ég sé með smá "stirðleika" í öxl eftir langa vinnuviku,
er það ekkert að tapa sér yfir".
"FÍFL", vöðvaverkstjórinn hló illyrmislega,
um leið og hann gaf í næsta spil.
"En kæra frú" , heilaræfillinn var gráti næst,
ég er búin að missa alla stjórn
á vöðvaliðinu í öxl yðar, og þeir
eru allir farnir í verkfall...gerið nú
þetta fyrir mig".
Húsfreyja setti í brýrnar.
Tarna var ljóta.
Ekki gat hún mætt í vinnu með "hangandi hendi"
á mánudag...varla að hún þyldi við í fríi heima
um helgina.
Ákvað að fara að skynsömum boðum heilaræfilsins,
og kom sér til "doktorsins".
Nú sést húsfreyja á blússandi fart á leið til sjúkraþjálfa
tvisvar í viku, þar sem helvískur aðallyftikraninn er mýktur upp,
og leiðararnir eru í "hljóðbylgjumeðferð".
Vöövaliðið er aftur komið til starfa: "Hún hefði
nú mátt leyfa okkur að klára
þriðju umferðina í félagsvistinni,
frúin. En auðvitað er alltaf gleðilegt
þegar fólk fer að skýrast í hugsun
á gamals aldri og stíga í vitið"!
Einnig má sjá húsfreyju utan dyra flesta daga að loknum
vinnudegi, íklædda sínum rauða kuldagalla,
sveiflandi örmum á gangi eins og bolsévikki í her
Stalíns á Rauða Torginu.
Húsfreyja veit það fyrir víst, að heilaræfillinn hennar er
alsæll.
Húsfreyja og vöðvaverkstjórinn hins vegar, ræðast ekki við.
Sættast kannski á Jólum.
Kannski.
Góðar stundir og hugið vel að heilsunni á köldum vetrarmorgnum....
annars eru allir velkomnir í bolsévikkamarseringuna með húsfreyju.
Flokkur: Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 22:49 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.