31.10.2011 | 21:06
Hvað saðð'ann?
Marinó Tý fimm ára var mikið niðri fyrir.
Enda Kafteinn Kolbeinn nýbúinn að ropa ofan
í flugvélatankinn, á hrapandi flugvélinni, með
Tinna og Tobba innanborðs, á meðan vondu karlarnir tveir
svifu til jarðar í fallhlífum.
Systurdóttir var á 200 kílómetra hraða að þýða og talsetja fyrir soninn,
því myndin var ekki með íslensku tali heldur texta.
Í þrívídd samt.
Marinó var með rödd sína stillta á HÆSTA styrk, svo
bíóáhorfendur í fimm bekkja radíus fengu "kommenta" hans beint í æð.
"Það blæðir líka úr eyrunum á mér", Væla Veinólínó ekki síður að
misbjóða viðkvæmum hlustum Marinós en Kafteins Kolbeins.
"Ó MÆ GOD", Tinni fljúgandi í loftköstum á eftir bófunum,
í brjálaðri tilraun að ná þremur bréfsnifum.
"Hvað saðð'ann, mamma"?
Það var mikið hlegið, og spennan var ærandi í bíósalnum.
Tinni og Kolbeinn ekki að klikka.
Náði húsfreyju alveg, myndin.
"Skeggjaðir hertir þorskhausar" og Rögnvaldur rauði fékk að
kenna á reiði Kolbeins.
Húsfreyja hló hátt og mikið, og skemmti sér konunglega.
Tíu ára djásnið vissi ekki góða stund, hvort hún ætti að vera vandræðaleg
yfir háværum kommentum Marinós eða gassahlátri móðurinnar,
en ákvað að lokum að gleyma sér í kvikmyndinni.
Systurdóttir þýddi og talsetti í gríð og erg.
"Ég skil núna, hvað þú gekkst í gegnum með mig, þegar þú
bauðst mér á Disneyteiknimyndirnar hér í den, Sigga, og þurftir að þýða
hverja einustu setningu", systurdóttir þurr í munni og sár í
hálsi í bíólok.
Það hlakkaði örlítið í húsfreyju, sem enn er að berjast við
krónískt hæsi frá árunum 1990-1995 eða 6 , þegar
einhverjum snillanum í kvikmyndabransanum
datt LOKS í hug að "talsetja" Aladdin.
Sérlegur "talsetjari" systurdóttur þessi ár, þegar Disneyfabrikkan
ungaði út nýjum teiknimyndum jafnt og þétt, einni eða tveimur á ári.
Hélt uppi Apoteki Þorlákshafnar árum saman með
Strepsils hálstöflukaupum, húsfreyja.
Fór með einn Strepsilspakka á sólarhring, í heila viku eftir "talsetningu"
fyrir systurdóttur.
Og stundum dugði ekki ein bíóferð...
"Sidda mín, þetta var frábær mynd, eigum við ekki að fara
aftur næsta laujardag"?
Hefur húsfreyja minnst á það , að henni finnst "íslensk talsetning"
á barna- og teiknimyndum, einhver mesta snilld sem hefur
verið upp fundin í voru litla landi.
En draumar og vonir húsfreyju um frama sem heimsfræg söngkona
dóu drottni sínum, steindrápust, og voru jarðaðar þessi
"talsetningarár" hennar með systurdóttur.
Hins vegar er systurdóttir eldheitur áhugamaður um kvikmyndir í dag,
allt frá teiknimyndum upp í drama, grín og morðgátur.
Kannski á húsfreyja örlitla hlutdeild í áhuga hennar þar með,
fyrst hún fórnaði frægð og frama og RÖDD sinni fyrir
gleði lítillar stúlku í bíó.
Hver veit?
En vissulega doldið GAMAN að systurdóttir skyldi
þurfa að "talsetja" sjálfan Tinna fyrir Marinó.
Finnst húsfreyju..hehehehehe.
Hefði viljað heyra systurdóttur þýða og talsetja
enska orðasambandið hans Kaftein Kolbeins:
"Þúsund skrykkjóttar tindabykkjur í þorskavíti".....hehehe.
Kvikmynd þessi um Tinna og félaga er tær snilld að mati húsfreyju,
svo kíkið endilega í bíó.
EN AÐVÖRUN: Fólk með VIÐKVÆM eyru ætti að
hafa með sér bómullarhnoðra...til að stöðva
"eyrnablæðinguna".
Góðar stundir og látið ekki frostið bíta ykkur í tærnar.
Meginflokkur: Spaugilegt | Aukaflokkur: Kvikmyndir | Breytt 4.11.2011 kl. 20:11 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.