24.6.2011 | 19:04
Álfar og huldufólk.....
... hvaða grillum ertu búin að koma inn
í höfuðið á barninu, Kristín?
Afanum Guðmundi Eyjólfssyni á Eiðum í
Vestmannaeyjum var mikið niðri fyrir.
Hann hvessti augum sínum á tengdadóttur sína,
með báðar hendur á mjöðmum byrsti sig.
"Þú gerir krakkann alveg ruglaðann með svona sögum"!
"En Guðmundur" , svaraði tengdadóttirin sár, " ég hef engar
álfa-eða huldufólkssögur sagt stelpunni".
"Það er alveg satt, afi", sagði litla 4 og hálfs árs manneskjan
hvöss við afa sinn, "mamma kann engar svoleiðis sögur".
"Nú jæja lambið mitt", afinn svolítið blíðari á manninn,
"hvaðan hefurðu þá alla þessa álfaspeki, hróið mitt"?
"Nú auðvitað frá henni Sissu vinkonu, afi, hún er álfur sjálf
og veit þetta allt saman".
Afinn horfði rasandi á fjögra ára sonardóttur sína.
Ljósir liðaðir lokkar, dökkblá augu í barnslegu andlitinu,
setti í brýrnar af einbeitingu og stakri réttlætiskennd.
"Hún Sissa á heima í litla húsinu úti á hól, afi,
og við leikum okkur alltaf saman, þegar Anna Stína
frænka er í fílu eða kemur ekki að heimsækja mig"!
"Hvaða þvættingur og þvaður er þetta, stelpa"
afinn pirraður, "það býr enginn út í hól og það er
ekkert hús þar"!
"VÍST, afi, þú bara sérð það ekki af því að
mamma og pabbi hennar Sissu vilja ekki að þú sjáir það"!
Litla manneskjan var á innsoginu..
Það hnussaði í afanum.
"En þau hjálpa þér oft að höggva eldiviðinn,
þegar þér er illt í mjöðmunum, afi, og þá fær pabbi
hennar Sissu svo að taka einn viðarkubb til að
skera myndir út í, og þær eru ofboðslega flottar".
Litla manneskjan horfði rannsakandi á afa sinn.
Trúði hann henni ekki?
Afinn starði á sonardóttur sína.
Strauk síðan höku sína hugsandi.
"Það var og" sagði hann loks.
"Það er reyndar merkilegt, Stína", sagði hann
við tengdadóttur sína, "að oft gengur mér ekkert
ver eða seinna að höggva í eldinn, þegar ég er
verkjaður í mjöðmunum, og get varla hreyft mig".
"SKO", sagði litla skottan ákveðin.
Málið var útrætt frá hennar hálfu, og hún skoppaði
út í sumarið og sólina.
"Tarna er skondinn krakki, með furðulegt ímyndunarafl,
Stína", heyrði hún afann segja móður sinni.
Húsfreyja hefur ekki séð Sissu vinkonu sína síðan hún
var fimm ára gömul.
Álfar eða ímyndun.
Ykkar er valið.
Góðar stundir, húsfreyja er með kjúlla í ofninum.
Töluðu til álfa degi fyrir óhapp | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
það eru allavega tveir álfasteinar hérna á Álftanesi, sem ég þekki. Annar er rétt hjá húsinu mínu og hinn er Grásteinn (sem er frægur). Eitt sinn þegar ég labbaði fram hjá Grásteini, þá lá teskeið á jörðinni og ég tók hana upp og setti í vasann og hélt áfram. Nokkrum dögum seinna fór ég að týna hlutum, eins og nótnabók, sem ég nota mikið, æfingateygjunum mínum og lítilli hitamottu (sem maður stingur í rafmagn). Ég leitaði og leitaði af nótnabókinni því ég saknaði hennar mest, setti húsið á hvolf. Allt í einu rakst ég á teskeiðina á kommóðunni frammi á gangi og lagði saman tvo og tvo. Labbaði uppað Grásteini, skilaði henni og bað álfana að skila mér nótnabókinni og æfingateygjunum, en hitamottuna mættu þeir eiga.
Svo skrítið; nótnabókin var þar sem hún er venjulega og ég næstum datt um æfingateygjurnar.
Álfar eða ímyndun ??
Sigrún Óskars, 29.6.2011 kl. 22:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.