29.5.2011 | 19:28
Hamingjan er í hlýjum geislum sumarsins.
Sú gula var í ham.
Húsfreyja skáskaut sér og djásninu
í gegnum þvöguna í Fjölskyldu- og Húsdýragarðinum,
fann svitann renna ónotalega niður eftir bakinu um leið
og mannfjöldin varð stopp við endann á brúnni.
"Váv, það er heitt", gjóaði augum á þá gulu í von um miskun.
Ekki sjens!
Tvær unglingsstúlkur með "Candyfloss" á lofti fyrir framan
húsfreyju reyndu að komast áfram með því að ÝTA.
Ekkert dugði, en gömul hvíthærð amma kvik á fæti,
skaust fram og til baka "út á hlið" fyrir framan húsfreyju
og unglingsstúlkurnar. Fram og til baka.....fram og til baka.
Gat greinilega ekki ákveðið sig hvort hún vildi vera hægra megin
í fólksmergðinni eða vinstra megin.
Enginn komst hænufet áfram.
Stúlkurnar flissuðu, og húsfreyja sá að ungur drengur á að giska
12 ára og stóð þétt fyrir framan þær, var kominn
með bleikar Candyfloss-strípur í dökkt þykkt hárið...aftan til.
Drengur varð einskis var.
"Þvílík hamingja, að lenda "fyrir aftan" candyfloss-stúlkurnar"
hugsaði húsfreyja með sér, um leið og "hliðlæga, hvíthærða amman,
fékk bleika Candyfloss-rönd á öxlina á ljósum sumarjakka sínum.
Amman varð einskis vör.
Loks fór mannmergðin að mjakast af stað.
Hænufet fyrir hænufet.
Ung stúlka í starfsmannafatnaði garðsins, reyndi að
fá fólk til að skipta brúnni eftir miðju..."gangið hægra megin,
GANGIÐ HÆGRA MEGIN" svo umferðin gangi í báðar áttir
yfir brúna"!
Hvíthærðu "hliðlægu" ömmunni gekk erfiðlega að sætta sig
við svo "afdráttalausa staðsetningu" á brúnni, var ætíð
komin í fangið á fólkinu sem streymdi yfir brúnna
á móti húsfreyju og djásni.
Starfsstúlkan beindi ömmunni hliðlægu aftur á hægri
helming brúarinnar.
Amman snerist í hring fyrir framan húsfreyju og Candyfloss-
stúlkurnar, fékk nýja bleika rönd eftir miðju jakkabaki,
og vippaði sér síðan snarlega 3 skref yfir á vinstri
helming brúarinnar.
Beint í fangið á fjölskylduföður með ungabarn á handleggnum.
Pabbinn dæsti af örvæntingu þess sem á sér enga undankomu
auðið, og leit ásakandi á starfsstúlkuna:
"Getið þið ekki stjórnað mannskapnum betur".
Starfsstúlkan togaði pirruð í hvíthærðu, hliðlægu ömmuna,
"VERÐUR AÐ VERA HÆGRA MEGIN, ÞÝÐIR EKKI AÐ TROÐAST SVONA".
Amman sté 1 og hálft skref til hægri, og reikaði restina
af leiðinni, svona ívið meira á vinstri helmingi brúarinnar.
Starfsstúlkan reitti hár sitt af örvæntingu er hún horfði á
eftir gömlu konunni.
Húsfreyja hélt sig til hægri með djásnið, og dró öndina léttar
er þær loks komust yfir brúnna.
Svala Marý, frænkubeibí, 12 ára mætti, skólaus, sokkalaus og með vinkonum.
"Eins gott að það er hlýtt" hugsaði húsfreyja.
Skórnir og sokkar frænku eitthvað blautir og verri eftir
glæfralega ferð yfir pollinn á fleka.
Svalan hvarf á braut með vinkonum.
Húsfreyja barðist með djásni í myljandi sólskini
að pallinum þar sem Sveppi og Villi voru að skemmta.
Þar múgur og margmenni, en nóg pláss uppi í brekku.
Þær mæðgurnar fundu fínan stað, og húsfreyja dæsti af ánægju.
"Nú mátti sú gula láta ljós sitt skína, halda uppi brækjuhita,
helst út alla skemmtunina".
En NEIPP!
Rúmri klukkustund síðar var sú gula farin í fílu,eða
máske bara örþreytt, eins og presturinn í Þorlákshöfn.
("Messufall næsta sunnudag. Prestur er þreyttur" , auglýsti
sérann í Dagskránni í Þorlákshöfn).
Það mígrigndi í Fjölskyldugarðinum.
Rigndi svo meira...og enn meira.
Tíu ára djásnið fór að fá sérkennilegan bláma
í kringum munninn, og tennurnar að skrölta í munni hennar:
"Mééér er svoooo KALT , mamma".
Skipti engu þó húsfreyja hefði asnast til að taka með
sér regnhlíf, og djásnið fengi hana til einkanota.
Húsfreyja yggldi sig upp í regngráan himinn, hugsaði
þeirri fúlu gulu þegjandi þörfina, og kom djásni sínu
af stað heim í einum hvínandi hvelli.
Móaði í hvíthærðu, hliðlægu ömmuna, ásamt fjölskyldu
við endann á brúnni góðu, þegar húsfreyja kom þangað með djásnið.
Snérust á hæli mæðgurnar, og fóru út um stóra breiða hliðið
Fjölskyldugarðsins í staðinn.
Tíu ára djásnið eigi að síður hæstánægð með ferðina...og bláu
blöðruna...alveg í stíl við kuldabláan lit vara hennar.
Húsfreyja svo að tvístíga í dag með ferðalög... og gáði áhyggjufull
til veðurs í morgun.
En þá lofaði sú gula bót og betrun, svo húsfreyja lagði af stað
austur í Þorlákshöfn með tíu ára djásnið.
"Hafðu ekki áhyggjur af
gervallri framtíðinni-
hún er aðeins dagur í senn".
Þar glotti risastórt rautt hjartalaga andlit á bílskúr systur
í Þorlákshöfn við húsfreyju og djásni.
"Noh, Hafnardagar byrjaðir" sagði húsfreyja djásni.
Djásnið brá sér á trampolínið "med det samme", þó sá
splunkunýi gripur væri eitthvað orðin skakkur og skældur
eftir ofsarok síðasta mánudag.
Systir í önnum, er búin að leigja hús elstu dóttur sinnar,
og mútta húsfreyju baslaði í bílskúrnum.
Var búin að finna bílskúrsgólfið sú góða kona, og helling
af fínum vetrarfötum, sem hún var einnig nýbúin að þvo.
Dugleg kona mútta.
Það var mikið spjallað, og verðandi leigjandi, gæðalegur maður
mætti í kaffi, og gott ef sú gula lét ekki svo lítið
að brosa endrum og eins inn um gluggana á eldhúsinu
til þeirra.
"Taktu ákvörðun um að vera
hamingjusamur-
og þú ert hálfnaður að markinu".
Sumarblóm húsfreyju eru öll komin út á sólpall.
Sú gula lofaði að sinna þeim!
Húsfreyja hefur einnig staðið í stífum samningaviðræðum við
"veðurguði alla" um heitt og blítt sumar.
Gott ef þeir eru ekki að samþykkja 8-10 vikur
af sólgulri veðursæld hér uppi á litla Fróni.
Bísna flinkur viðsemjandi, húsfreyja, þó hún segi sjálf frá.
Góðar og hamingjuríkar sumarstundir.
Flokkur: Spaugilegt | Breytt 1.6.2011 kl. 21:15 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.