22.5.2011 | 11:59
Heimsendir mætti...
...en eingöngu á einn stað á jörðu",
móður húsfreyju var mikið niðri fyrir í símanum.
Húsfreyja nuddaði stírurnar úr augunum,
svaraði rámri röddu: "Nú, og hvar þá"?
"Á litla Fróni, Vatnajökli, nánar tiltekið Grímsvötnum"
svaraði múttan ákveðin.
"Stendur strókurinn upp af landinu, eins og pabbi þinn
sagði við þig hérna um árið, þegar þú skrappst til London".
Húsfreyja mundi vel þá reisu, og að hafa hringt heim
frá London að kanna stöðuna eftir að hafa séð fregnir í
enskum dagblöðum um eldgos í Vatnajökli.
"Þú ert ekki fyrr búin að þvælast af landi brott", hafði
pirraður faðir hennar þrumað í símann, "en að eldstrókurinn
stendur upp af landinu".
Húsfreyja hafði svarað föður sínum mildilega. " Það er nú kannski
lítil tenging milli minna ferðalaga og eldgossins í Vatnajökli, pabbi".
En það var faðirinn ekkert svo viss um, og taldi nánast að
rekja mætti allar náttúruhamfarir litla Fróns síðustu ár við "ferðalög
húsfreyju á erlendar grundir".
"Svo er allt vaðandi í ösku og skít, en hér er hún mamma þín"
voru kveðjuorð föðursins til húsfreyju.
Þær mæðgur veinuðu af hlátri í símann, svarti pirringurinn í
yfirlýsingaglöðum föður húsfreyju kitluðu hláturstaugar þeirra
verulega.
"Ja, margt hefur þú á samviskunni, dóttir góð", voru orð móðurinnar
þegar þær loks náðu andanum fyrir hlátri.
Nú er þetta annað gosið á stuttum tíma þarna í jöklum
Suðurlands, en húsfreyja getur svo svarið að hún hefur ekki
hreyft sig af landi brott síðan hún
skrapp til Prag á haustdögum 2008.
Svo húsfreyja sagði móður sinni að þessu elgosi núna gæti hún
ekki bætt ofan á sína samvisku, fremur en gosinu í Eyjafjallajökli
á vordögum í fyrra.
Eftir hressilegan hlátur ræddu þær málin mæðgurnar.
Þær voru sammála um að litla Frón sé þekkt fyrir að
vera vel búið "virkum eldstöðvum" og þær eldstöðvar muni gjósa
reglulega hvað sem öllum heimsendaspám líður .....
en vert væri að halda þessu opnu með tengingu eldgosa á
litla Fróni við utanferðir húsfreyju.
Jamm, húsfreyja hefur orðið fyrir því að vakna með
eitt stykki eldgos nánast úti í bakgarði heima hjá sér,
og mælir ekki með slíkri lífsreynslu.
Hún er fegin því að gosið er fjarri mannabyggð,
og um leið óskar hún þess að vindátt snúist, svo
askan valdi ekki skaða á bæjum í kring.
En við erum vön að berjast í svona málum hér uppi á
litla Fróni, og allt tekur þetta enda fyrr eða síðar.
Húsfreyja beitir óspart húmornum, þegar erfiðar
minningar tengdar gosi í Eyjum 1973 koma upp í hugann,
henni eðlislægt.
Baráttukveðjur til allra sem búa í nálægð öskufalls.
Góðar stundir í "míní-heimsenda"!
Eldingar í gosmekkinum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Umhverfismál | Aukaflokkur: Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 16:00 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.