17.1.2011 | 18:55
Óumdeilanlega umdeilanleg aðferð....flugufólks?
Ansi skondin frétt atarna.
Húsfreyja varð að lesa hana tvisvar,
áður en hún náði áttum.
Það er óumdeilt að "flugumenn" hafa löngum
verið á ferli hér á voru jarðarkríli, þó þeirra útlit sé ekkert líkt blessuðum
flugunum, er flögra hér um voru frónversku grundir sumarlangt.
Sei sei nei.
Ekki aldeilis.
Vængjalaust lið!
Ósköp venjulegir menn og konur á að líta.
Nema auðvitað Mata Hari, sem þótti fegurst allra "flugukvenna",
á stríðsárum fyrri heimstyrjaldarinnar, hér snemma á síðustu öld,
og Frakkar ákváðu að koma fyrir kattarnef, sem frægt er orðið;
nú og svo auðvitað öðlingurinn og glæsimennið hann "Dobbúl ó Seven",
uppdiktaður "flugumaður", sem fær allra kvenna hné til að nötra....."Oh, James"!
Og nú virðumst við hafa fengið einn herlegan flugumann
í þjónustu hennar konunglegu hátignar, Betu bjútí,
hér upp á litla Frón beint inn í "Saving Iceland-samtökin",
og sá er "Kennedy" hvorki meira né minna.
Húsfreyja hafði bara ekki gert sér grein fyrir því hversu hrikalegt
"stórmál" það væri fyrir bretana, að bjarga oss mergjuðu "hryðjuverkapakkinu"
og skeri voru hér úti í miðju ballarahafi.
Senda oss "flugumann" hvorki meira né minna.
Jeminn eini!
Fara nú leikar að æsast.
"Dobbúl ó Kennedy" eða "Mark Hari" máske næsta kvikmynd
sem Balti smellir sér í að filma hér uppi á litla Fróni?
Aðeins eitt sem er eitthvað að vefjast fyrir húsfreyju:
"FORVIRK RANNSÓKN"... er HVAÐ nákvæmlega, Össur minn?
Hefur heyrt talað um "forherðingu, forgang, forföll, forfæringu,
forgengileika, forheimsku, forkaup, forvitni, forkólf, forláta,
forlið, fordæmingu og forhúð", húsfreyja,
en aldrei nokkurn tíma heyrt orðið "forvirk...eða forvirkni"??
Finnur það ekki heldur í nokkurri frónverskri orðabók.
En kannski er það að vera FORVIRKUR allt ofantalið, eða hvað?
Eða máske er þetta ekki forliðurinn "for" neitt, heldur gamla
rammíslenska orðið FOR= hlandfor eða þá bleyta, aur, leðja?
Og Össur þá að spjalla um "hlandforuga virkni" eða "haugdrulluga og blauta"?
Og þannig virkni á einhverjum "flugumannarannsóknum"!
BJAKK!
Í hverju er hinn breski Kennedy að moðast?
Frónverskum drulluflór?
Það líst húsfreyju ekkert á, og ættu bændur allir hér uppi á Fróni,
að huga vel að flór sínum, og verjast sem mest þeir mega
"forvirkum rannsóknum" breskra flugumanna!
Pússa jafnvel upp gömlu ryðguðu rjúpnabyssurnar úti í hjalli,
og freta nokkrum aðvörunarskotum upp í loftið,
heyri þeir á mál breskra við bæi sína!
Jamm.
En húsfreyja hefur engan fordæðuskap í gangi á sínu heimili
á nýju ári og ætlar að fordrífa alla svartsýni ásamt tilfallandi flugufólki á braut,
forbúin, fordegis og laus við alla fordild.
Góðar stundir.
Össur: Mjög umdeilanleg aðferð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.