7.1.2011 | 18:33
Ófært, illfært og snjóblint... á Húsavík '89.
Það hefur löngum loðað við
Norðurlandið, að þar gæti snjóað.
Einkum þá kaldir vindar Vetur konungs blása að norðan,
vestan, austan.... og jú jafnvel að sunnan einnig.
Þá húsfreyja var ung, fögur og heillandi meyja að sunnan,
(nú er hún einvörðu fögur og heillandi), og með eðal
hjúkrunarpróf upp á vasann, flaug henni það
snjallræði í hug, þá 5 ára gjörgæsluhjúkrunaræði hennar hafði
runnið sitt skeið, að skreppa norður í land og fá sér
starf á ágætu sjúkrahúsi Húsvíkinga.
Bjallaði norður og sótti um starf.
"Jú komdu á morgun", var svar Aldísar Friðriksdóttur hjúkrunarforstjóra
"Öööömmm.. kemst ekki alveg á morgun, Aldís, á eftir að
vinna 2 mánuði af uppsagnarfrest mínum".
"Jæja, þá STRAX og honum lýkur" ákvað Aldís snarlega.
Og 10 júlí 1989 var húsfreyja mætt til starfa á sjúkrahúsi
allra Húsvíkinga, og Erna Ólafsdóttir deildarstjóri tók henni fagnandi.
Húsfreyja var svo einnig heppin með afbrigðum, að eiga
föðurbróður á Húsavík, hann Óla á Borgarhól, og hann og hans
yndislega kona Guðlaug skutu yfir hana skjólshúsi meðan
hún dvaldi og starfaði á Húsavík.
Sumarið 1989 var hlýtt á Húsavík og fegurð umhverfisins heillaði
húsfreyju upp úr skónum.
Mannlíf var sömuleiðis sérstætt og skemmtilegt, og
Húsvíkingar höfðu sitt eigið "Leiðarljós" í gangi á sjúkrahúsi
sínu, þar sem húsfreyja jú starfaði, svo það var aldrei
dauður tími hjá henni.
Það vetraði "snemma" að mati sunnlensku hjúkkunnar,
veturinn 1989.
Byrjaði að snjóa í September.
Og það snjóaði.
Og snjóaði.
Og snjóaði.
Til að byrja með, tóka snjó af og til upp, bætti í, tók upp, bætti í,
svo snjór náði aldrei nema upp að hnjám húsfreyju.
Iss, lítið mál, og húsfreyja gerði góðlátlegt grín að
ægilegum snjósögum frænda sinna á Húsavík.
En svo var það einn vetrarmorgun þá húsfreyja átti að
mæta á morgunvakt, að eitthvað var ekki alveg eins og það átti sér.
Húsfreyju fannst eins og "Borgarhóll" næði ekki alveg djúpa
andanum þegar hún fór á fætur um sjöleytið.
Hún pírði syfjulega út um glugga.
Sá ekkert.
Rúðan alhvít af snjó, þó var húsfreyja uppi á annari hæð.
"Jæja, svo það hafði snjóað svolítið um nóttina.
Best að drífa sig fyrr af stað, ekki gott að mæta seint
til vinnu, þá fengu vinnufélagarnir færi á að stríða
sunnlensku hjúkkunni fyrir ræfildóm í "smá norðlenskri
snjókomu"!
Húsfreyja snöflaði í sig morgunmat með hraði.
Rauk í vetrargalla sinn og kuldaskó, og opnaði útidyrahurðina.
Hvítur snjóveggur blasti við henni.
Jaso.
Húsfreyja reyndi að ýta við fönninni, gæti bara verið þunnt lag.
NEIPP.
Gaf hvergi eftir fannfergið.
Stóð og mændi á mjöllina sem fyllti dyragættina, þegar frændi
mætti niður.
"Við skulum reyna að finna aðra leið út úr húsi, Sigga mín".
Frændi ekkert nema gæðin.
Húsfreyja klöngraðist niður stigann niður í kjallarann,
eftir rangölum og loks upp um gólfið í bílskúrnum,
á eftir frænda.
Þar tókst þeim loks að komast út úr húsinu... 3 og hálft skref.
Snjór, snjór og meiri snjór... upp á bringu...herðar...höfuð,
svo langt sem augað eygði.
Og blindhríð í ofanálag.
"KRÆST, og ég sem á að mæta til vinnu eftir 40 mínútur"
hugsaði húsfreyja svört.
Frændinn horfði sposkur á frænku sína:" Þú verður máske
eitthvað seinni í vinnuna enn venjulega, frænka í dag.
En þeir fara nú yfirleitt af stað á snjóbílum og sækja
starfsfólk á sjúkrahúsið og fleiri vinnustaði um áttaleitið,
ef fólk óskar þess".
Húsfreyja tók snögga ákvörðun. "Ég labba þetta frændi".
Frændinn glotti: Gerðu svo vel" og rétti henni skóflu,
"bara týndu henni ekki"!
Húsfreyja tók við að moka sér leið í áttina að götunni,
þar grillti þó í ljósastaurana í hvítri ofankomunni.
Mokstur, barningur, snjóug gleraugu tóku síðan
við þegar kom að fyrsta ljósastaur, vindur blés beint
í andlit húsfreyju.
Tvisvar hélt húsfreyja að nú yrði hún að grafa sig í fönn,
eða verða úti öðrum kosti.
Ákallaði Guð og alla góða verndarengla sér til bjargar.
Og hélt áfram.
Einu sinni var hún rammvillt og búin að tapa öllum áttum.
"DJÍSUSS... var búið að færa fjandans sjúkrahúsið"?
Sá andskotann ekki neitt nema alhvítan himinn, alhvíta jörð
og allt hvítt þar á milli líka!
Hékk utan í ljósastaur í vetrarstorminum góðar 10 mínútur áður en
örlítið rofaði til og hún sá að hún var stödd fyrir framan öldrunarheimilið.
"HAH, stutt eftir".
Barðist sem óð væri, með skófluna á lofti síðustu metrana að
andyri sjúkrahússins.... nær dauða en lífi af áreynslu datt hún þar inn.
Klukkan var 08:54.
Húsfreyja blautari en hundur á sundi.
Það stóð heima, þegar húsfreyja var sest niður
í þurrum vinnufatnaði með heitan kaffibolla uppi á vakt
og var þess albúin að taka við rapportinu, að restin af morgunstaffinu mætti.
Allir skraufaþurrir, hafði verið ekið af björgunarsveitarmönnum
í vinnuna af snjóbílum á "beltum"?
"Hva, ert þú mætt"??
"Þú varst ekki með okkur í bílnum"!
"Hún kom gangandi", svaraði næturvaktarhjúkkan og glotti.
"Hei, hún kom GANGANDI í vinnuna, sunnlenska hjúkkan"
orgaði sjúkraliði niður stigann, á eftir björgunarsveitarmönnum.
Tveir þeirra komu stökkvandi upp, til þess að berja
vesalings fáráðinn augum, sem hafði nánast drepið sig á því einu
að mæta í vinnuna, ...54 mínútum of seint,
í stað þess að bjalla í þá og fá FAR!
Glottu meinlega: "En þú náðir að komast í vinnuna á undan
öllum hinum, það er "auðvitað" mjög mikils virði. (Fliss)
En við ætlum að keyra fólkið aftur heim klukkan fjögur,
má kannski bjóða þér með...eða ætlarðu
að "labba" aftur"?
Tröllslegur hlátur fylgdi spurningunni.
Húsfreyja aðeins búin að jafna sig eftir hremmingarnar,
rétti úr sér, þóttist líta til veðurs út um snjóugan glugga á ganginum:
"Það fer nú eftir ýmsu, strákar. En ef að veðrið "versnar" eitthvað mikið,
þigg ég auðvitað farið".
Það var hlegið dátt, og auðvitað var húsfreyju ekið heim
að lokinni vinnu þennan dag, sem öllu öðru starfsfólki.
Sem betur fer kom brunakuldi í kjölfarið á brjáluðu snjókomu
þessari, svo allt fraus, og hægt var að GANGA ofan
á harðfenninu, í stað þess að þurfa að ösla í gegnum
allt heila klabbið.
Og þannig hélst þetta allan veturinn.
Götur allar hækkuðu um 1 og hálfan metra af völdum
snjóhríðar þessarar, og gangstéttar allar breyttust í
snjófjallagarða.
Húsfreyja hefur ALDREI hvorki fyrr né síðar séð jafn mikinn snjó,
ekki einu sinni í "mikla snjónum" í Eyjum 1968.
Frændur húsfreyju, Ólasynir staðhæfa, að svona veður sé ALVANALEGT
á veturna á Húsavík.... "gerir þér grein fyrir því, að við búum
við "ystu mörk" hins byggilega heims, frænka".
Jamm.
Það er smá föl á sólpalli húsfreyju.
Læðan tiplar að klórstaurnum sínum yfir snjóinn,
lyftir loppunum, eins og "megabeib á 20 sentirmetra hælum",
og mjálmar í kvörtunartón til húsfreyju...."mjaavvvr..þetta er skítkalt
og blautt...ekki hægt að bjóða heiðviðrum ketti upp á svona meðferð"!
"Iss, vorkenni þér ekki rassgat, köttur, mátt þakka fyrir að vera
ekki köttur á Húsavík...og KLÓRAÐU svo"!
En húsfreyja splæsti í pizzu á föstudagskveldi.
Snæða næst.
Góðar vetrarstundir.
Nánast ófært á Akureyri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.