20.12.2010 | 21:59
Miðlægur köttur?
Kattarrófan situr í viðbragðstöðu bak við tölvuskjáinn,
hljóð og kengspent....eitt mjaaavvrrrr!
Við öllu búin.
Um leið og húsfreyja sest við kompjúter sinn og tekur
að hamra á lyklaborðið, læðist kisa fram léttum þófum
og tekur að rápa fram og til baka yfir tölvuborð húsfreyju..
lkkadirijfd..notjrmværi...dfklriifjfjk..lkfjlfkdklfæad....
Húsfreyja byrstir sig við kött og reynir að stroka út
kattarsanskrítina jafn óðum.
Köttur setur upp snúð, hlammar sér á óæðri endann
skammt frá tölvumús húsfreyju,
og þykist vera óhreinni en skrattinn sjálfur fastur
í tjörupotti sínum í iðrum Vítis um leið og hún þvær sér.
Slær rófunni í átt að músinni, músin slæst utan í
lyklaborðið svo húsfreyju fipast sláttartakturinn og
slær inn nokkur orð á sinni eigin sanskrít...kloiip...fertoif....búff!
"Er nú bráðnauðsynlegt að vera að ÞVO sér akkúrat
hér uppi á skrifborði hjá mér" spyr húsfreyja kött.
Læða virðir ekki húsfreyju viðlits...hægra eyra hennar virðist
með versta móti af skít í dag.
"Það var og" hugsaði húsfreyja, "þá loksins ég hef stund
í kompjúterinn, þá verður kötturinn athyglisjúkur"!
SJÍSS!
En hana! Köttur aftur farin á bak við tölvuskjá.
Móðguð!
Látum vera.
Aldeilis kominn tími á smá aðventu-pistil.
Húsfreyja verið í miklum ham það sem af er desember,
og á lítið eftir nema að skreyta jólatréð og pakka inn
tveimur pökkum handa níu ára djásninu.
Samt herjuðu á húsfreyju mergjaðar pestir af og til,
hiti, beinverkir, hálsbólga, magakveisa og uppsölur.
Tarna var ekki félega aðventan hjá húsfreyja á tímabili,
en síðan bráði af húsfreyju, svo hún smellti sér í
fimmta gír og reit jólakort í gríð og erg,
verslaði jólagjafir handa venslafólki og ástvinum, þreif gardínur og
eldhússkápa, reddaði fjárhagnum af stakri snilld (neipp, ekki lán),
þreif glugga, skreytti þá seríum, pakkaði inn gjöfum,
fór í jóladinnera eina þrjá, einn konukvöldverð, og fór í
skólaföndur með djásninu og svo eina Húsdýragarðsferð..
Svona rétt náð að heilsa upp á Esjuna af og til,
og dást af rauðbleikum skýjum yfir hvítum koll hennar,
og að vísitera múttu sína austur í Þorlálshöfn.....TVISVAR.
Og alltaf með níu ára djásnið á hælum sér:
"Mamma, hvenær fáum við jólatréð"?
"Mamma, nú eru bara 10 daga...7 dagar....5 dagar....osfr til jóla".
"Mamma, við eigum eftir að fara í Húsdýragarðinn".
"Mamma, mig langar í svona....hitt....þetta... og alveg rosalega
mikið í þetta hér í jólagjöf".
Og svo klykkir hún út með:
"Mamma, ég á svo afmæli STRAX í næsta mánuði.... hvenær má
ég byrja að bjóða í afmælið mitt"?
Kattarloppa kemur skyndilega á fleygiferð undan skjánum,
og ein kló krækir í húð á löngutöng hægra handar húsfreyju....Á!
"Grálúsuga gráslemban"!
Húsfreyja potaði loppunni aftur undir skjáinn.
Köttur læddist grautfúll framundan skjánum og settist aftur
í "baðsæti" sitt við hlið tölvumúsar.
"Sjóræningi og saltaður sjódraugur"....húsfreyja hvessti augum
á læðu, um leið og hún las henni pistilinn upp á "Kolbeinsku"!
Hefur húsfreyja annars minnst á að jólasveinar þeir er í
skó gefa, næturlangt þennan mánuð, eru með snjallasta móti?
Búnir að gefa níu ára djásninu tvær TINNA-bækur í skóinn!
Bara SNILLD!
Loftur Guðmundsson á heiður skilið fyrir snjallar þýðingar á
bókum þessum.
Húsfreyja er að lesa "Leyndardóm Einhyrningsins",
og skemmtir sér sem aldrei fyrr yfir orðaleppum Kolbeins kafteins.
Jamm, annríki en góðir dagar eigi að síður.
Mútta húsfreyju hefur einnig verið í ham á jólaaðventunni þetta árið.
Vegna mistaka hjá TR var henni OFGREIDDUR ellilífeyrir upp á 180.000,
og auðvitað er þá mútta komin í bullandi skuld við þá
ágætu en örlítið "heilabiluðu" stofnun.
Eftir mikil bréfaskrif, símhringingar, heimsóknir á sýsluskrifstofur
og spjall á "forn-Grísku" við ýmsa aðila á TR í 5 mánuði, ákvað mútta húsfreyju
fyrir rest að SEMJA um greiðslur á "óumbeðnu láni" þessu.
Jú, mútta mun næsta áratuginn eða tvo, greiða því sem samsvarar
5000 krónur á mánuði, þar til 180. þúsund kallinn er að fullu
greiddur ...með vöxtum að sjálfsögðu...svo eitthvað losar þetta
200 þúsundin þegar upp er staðið.
Allir pappírar undirritaðir og frágengnir í haust.
Mútta alsæl.
EN......
Viti menn.
Mútta húsfreyju fær mánuð eftir mánuð rukkun upp á
45 þúsundir, í stað fimm.
Svo mútta hringir í TR, sem af rammíslenskri visku
vísar á sýsluskrifstofur og Landsbankann,
og mútta síðan hringir í með hraði.
Sýsli vill ekkert ræða málið, vísar á Landsbanka allar Frónbúa.
Mútta hringir.
Spjallar við ágæta konu í útibúi á Selfossi, sem veit EKKERT um málið,
hringja "vinsamlega" aftur á morgun.
Mútta hringir morguninn eftir, og vinaleg stúlka í "Vík í Mýrdal"
svarar henni.....öööö jú finnur eitthvað í tölvu sinni....
..."en við höfum aldrei fengið neitt um málið frá MIÐLÆGA KERFINU"!
"Getur þú þá frætt MIÐLÆGA KERFIÐ um samninginn sem ég gerði við ykkur
hér í Þorlákshöfn", spyr mútta örvæntingafull.
"Jú", stúlkan telur það nokkuð öruggt, "hringdu aftur á morgun".
Næsta dag er mútta komin á myljandi spjall um sín mál við konu eina
starfandi í útibúi Landsbanka á "SIGLUFIRÐI"!
Biður enn og aftur um að einhver RÆÐI við MIÐLÆGA KERFIÐ,
svo hún fái réttar upphæðir á rukkanir sínar.
Jaso!
Síðast þá húsfreyja vissi, var málið í vinnslu í "jaðarkerfinu"?....."útlæga"
kefinu?...og verið er að reyna að ná "einhverju" sambandi við
MIÐLÆGA KERFIÐ... og takist það, þá má mútta húsfreyju
líklega vænta símhringingar frá útibúi Landsbankans í GRÍMSEY....?,
og henni tilkynnt að málið sé orðið MIÐLÆGT og þar með DAUTT..
....eða hvað?!
Nema að Landsbankinn sé kominn með útibú í
Kúlusúkk á Grænlandi...þá á mútta húsfreyju "auðvitað" eftir að
bjalla í einhverja góða konu þar, og ræða málið "frá byrjun"
við hana núna í vikunni.
En nóg að sinni, kötturinn farinn að skralla í "miðlægum" jólapappír húsfreyju.
Góðar og "miðlægar" stundir á jólaðventunni.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.