28.11.2010 | 22:53
Ljómandi hugmynd eða hugljómun?
Húsfreyja var upptendruð af andakt
og góðum tilfinningum á fyrsta sunnudegi
í aðventu.
Níu ára djásnið kveikti á fyrsta kertinu, eftir að
húsfreyja græjaði aðventukransinn með ilmandi greni,
rauðum kertum og skrauti.
Húsfreyja dæsti ánægjulega um leið og jólaljós
voru komin út í glugga hjá djásninu og jólakúla
í svefnherbergisglugga húsfreyju og bónda.
Jaso, nú var bara eftir að skella aðventuljósunum
í eldhúsgluggann, og þá fengi hún pásu.
Himinsæla.
Kannski að húsfreyja ætti að tylla sér við tölvuskjá sinn og rita einn
herlegan pistil, uppfullan af hvatningu og fallegum orðum svona í
tilefni af því að hátíð friðar og ljóss er að hefjast?
Já, og máske vera með tilvitnanir í trúarleg fræði, sem
ku vera full af fallegum og uppbyggjandi orðum.
Þetta fannst húsfreyju afbragðshugmynd.
Tók með hraði úr hillum sínum tvö trúarrit, gamla og velkta
Biblíu sína og nýlegan Kóran sem henni hafði áskotnast á
bókamarkaði ekki alls fyrir löngu.
Falleg og uppbyggileg orð full innri friðar og ljóss.....fletta....
Kona ein islamatrúar er húsfreyja þekkir, kveður Kóraninn fullan af helgum boðskap
og fögrum.
Jæja, látum á reyna.
Húsfreyja fletti upp í Kóraninum:
Falli þjófnaðarsök á karl eða konu, skal handhögg vera sú
hegning til varnaðar sem Allah leggur við. Hann er máttugur
og alvitur (5. súra).
"Óttist ekki menn, óttist Mig";...(5. súra).
"Fyrir á höfum Vér lagt, að koma skuli líf fyrir líf,
auga fyrir auga, nef fyrir nef, eyra fyrir eyra og tönn
fyrir tönn, og jafngildi fyrir sár.
En hverjum sem af góðvilja hafnar hefndakosti skal
það til friðþægingar verða. En þeir sem dæma ekki eftir því
sem Allah hefur opinberað, eru ranglátir"(5. súra).
"...Allah er máttugur, og hans er að hegna"(5.súra).
"Vitið að Allah refsar stranglega: en Hann fyrirgefur og
er miskunnsamur"(5.súra).
" Óttist Allah, sem yður mun til sín safna".(5. súra)
"Tarna var ljóta eitursúran fimmta "súran" í Kóraninum", hugsaði
húsfreyja, "ótti, refsing, auga fyrir auga og tönn fyrir tönn.
Ekki var þetta fagur boðskapur, reyni aftur að fletta með lokuð
augun".
"Ef einhver hyggur að Allah muni eigi veita sendiboða
sínum sigur í þessum heimi og þeim sem kemur,
þá mætti hann festa reipi við rjáfrið í húsi sínu og
hengja sig...." (22. súra).
"..Hinum vantrúuðu er af eldi stakkur skorinn,
og yfir höfuð þeim skal hellt sjóðandi vatni,
sem bræðir skinn þeirra og allt sem í búk þeirra
fundið verður." (22. súra)
"Þá sem trúa og góð verk vinna, mun Allah leiða í
garða, þar sem elfur streyma. Þar munu þeir skreyttir
perlum og armböndum úr gulli og klæddir silkiskrúða".(22.súra)
Andskotinn í grárri mysu, þetta leist húsfreyju ekkert á.
Sjálfsmorð, pyntingar og loforð um punt og prjál
ásamt vatnssopa í eftirlífinu.
Ekki var það jákvæður og uppbyggilegur boðskapur.
Hætti að blaða í Kóraninum, verður að bíða sú gæða-lesningin fram
yfir hátíðar.
Jæja, gæti verið ögn skárra að kíkja í Biblíuna,
þó ekki sé það allt fallegt sem í þá bók er ritað.
Fyrst af handahófi:
"Óttist ekki. Þetta er það sem yður ber að gjöra:
talið sannleikann hver við annan og dæmið
ráðvandlega og eftir óskertum rétti í hliðum yðar.
Enginn yðar hugsi öðrum illt í hjarta sínu og hafið
ekki mætur á lygasvardögum. Því allt slíkt hata
ég, segir Drottinn". (Sakaría 8:17.)
Jæja, með því skárra úr Gamla testamentinu. Ekki alveg klárt hjá húsfreyju
hvaða "hlið" er verið að ræða um, eða kannski eru þetta "hliðar", (nema ef vera
skildi að þetta væri gömlu hliðin á Eiðum og Grænuhlíð 20 í Eyjum)
en það er svo margt duló í Gamla tesatmentinu.
"Þér hafið heyrt að sagt var: Þú skalt elska náunga þinn
og hata óvin þinn. En ég segi yður: Elskið óvini yðar
og biðjið fyrir þeim, sem ofsækja yður".....(Matt. 5:43).
Margt fallegt að finna í Nýja testamentinu enda kærleiksboðskapur
Krists þá kominn til sögunnar.
"Elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim, sem ofsækja yður" er mjög
flottur boðskapur að mati húsfreyju.
Þannig snýst iðulega ofsóknin upp í andhverfu sína, og vopnin eru
slegin úr höndum óvinarins.
Kærleikurinn er öflugasta "vopn" okkar mannanna, og
sýnum við náunga okkur kærleik og gerum góðverk, virðumst við fá
það hundraðfalt til baka.
Merkilegt.
Það finnst húsfreyju.
En svo langan tíma tók það húsfreyju að finna fögur orð til
að leggja út af, að hún er komin með "hugsanastíflu" af þreytu.
Telur hún að næst láti hún vera að leita í bókmenntir trúarbragða
í leit að slíku og þvílíku.
Jú, þekkir sína Biblíu nokkuð vel húsfreyja, en vildi láta reyna á önnur
trúarbrögð í þetta sinn, svona til að gæta jafnræðis.
Viðurkennir fúslega, að hún er ekki byrjuð að lesa Kóraninn,
rétt búin að blaða hist og her í honum í kvöld, tilviljun ráðið,
og er sjálfsagt bara ekki búin að finna allar blaðsíðurnar
með fögru orðunum í þeirri skruddu.
Getur þá undirstrikað þau með bláu líkt og uppáhalds vers
sín í Biblíunni.... og þá skal sko næsta hugleiðing ganga glatt.
En vill að lokum svona í tilefni aðventu og jóla aðeins segja þetta:
"Ég óska ykkur þeirrar hamingju að finna réttu gjafirnar handa þeim
sem þið elskið".
Góðar stundir á aðventunni.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.