9.7.2010 | 12:19
Dýrðlega dýrsleg spádómsgáfa!
Kolkrabbinn Páll er sérlegur
"spádómsgúrú" allra fótboltaunnenda
víða um hinn vestræna heim.
Spáir grimmt um velgengni og tap
fótboltaliða á HM af stakri visku og fótboltaáhuga,
velur alltaf þá tuðruna best "angar" af síl....nei, sigri.
En nú er páfagaukurinn Mani að sækja í sig veðrið
og ekki einungis segir til um markverðustu mál
jarðar eins og HM-úrslit, heldur er hann einnig eitursnjall
að gefa upp hárréttar LOTTÓ-tölur.
Húsfreyja fékk aldeilis brilliant hugmynd í gær eftir lestur fréttar þessarar.
Hehehehe.....lukkustjarnan sjálf komin í heimsókn til húsfreyju.
Húsfreyja reif sig upp í bítið í morgun, og föndraði sem
alóð væri.
Tók föndrið ásamt "konunglegri læðu heimilisins og sérlegum
flugnabana" út á sólpall.
Albjart, sól skein í heiði, lóuherra á vappi í leit að "dauðvona"
ormum og skorkvikindum leit vart upp í brekkunni.
Enginn annar kominn á stjá í hverfinu, sem var vel.
Húsfreyja raðaði upp spjöldunum sem hún hafði útbúið,
hvert spjald með einni LOTTÓ-tölu, á sólpallinn.
"In no particular order".
Skellti læðu fyrir framan "föndursnilldina".
"Veldu 5 tölur" skipaði hún læðu.
Læða gjóaði skarpgreindum, grænum "spádómsaugum" á spjöldin,
gekk að einu þefaði af því, sló loppu í það og reyndi
síðan að éta það.
"HAH"! "37", húsfreyja skráði töluna niður í einum hvínandi hvelli.
"Næstu" skipaði hún læðu kengspennt!
Læða lagðist makindalega ofan á "tölur" 15, 22, og 18,
sló skottinu á tvistinn og reyndi enn að éta "37".
Húsfreyja varð gripin miklum ákvörðunarkvíða.
"Var læða þá búin að velja, allar tölurnar fimm, eða var
hún enn að VELJA 37, eða hafði hún miskilið skipun húsfreyju,
og haldið að hún ætti að ÉTA 5 tölur, ekki VELJA".
Húsfreyja nagaði endann á blýant sínum í angist sinni.
"En bíðum við"! Læða var staðin upp, hnusaði af hinum
og þessum spjöldum, snarstansaði og starði stíft á 41...
stökk og drap fluguræfilinn sem í mesta sakleysi hafði skellt sér á
41 til að njóta geisla morgunsólarinnar.
"HUH, ekki var þetta þín lukkutala, flugugrey" sagði húsfreyja
um leið og læða sporðrenndi skorkvikindinu.
Skrifaði samt hikandi "41" á blað sitt.
Kötturinn sleikti ánægjulega út um, leit spyrjandi á húsfreyju.
Húsfreyja tók ákvörðun.
"Þú átt eftir að VELJA 3 tölur í viðbót".
Læða leit niður á spjöldin....ýtti loppu við 8...reyndi að
smakka á því.
Húsfreyja aftur frávita af spenningi, skrifaði 8 niður með hraði.
Læða geispaði, rölti yfir spjöldin út um hliðið, út á iðagrænt grasið,
hóf að bíta það.
"Heyrðu góða" húsfreyja pirruð, "þú átt tvær eftir enn"!
Læða virti húsfreyju ekki viðlits.
Nartaði í safaríkt grasið, og gjóaði augum á lóuherrann sem hafði
orðið hennar var, og dirraði nú bálreiður uppi í brekkunni.
Húsfreyja gaf læðu ekkert eftir.
Náði í "spágripinn" og skellti honum aftur fyrir framan spjöldin.
Læða horfði furðulostin á "tvífættu, hárlausu þjónustuna" sína.
Kerla hafði hingað til ekki amast við smá grasáti, jafnvel hvatt
læðu til þess....sérstaklega eftir að hún hafði "óvart" ælt á
mottuna í forstofunni.
"Hvað var eiginlega að þeirri tvífættu í dag"?
Læða gekk að klórstaurnum sínum, tók langt klór og brýndi vel.
Leit á húsfreyju.
"Velja", skipaði húsfreyja og benti á spjöldin á sólpallinum.
Læða virtist loksins skilja alvöru málsins.
Gekk aftur að spjöldunum.
Steig létt og lipurt til jarðar, eins og til að rugla nú engu,
staðnæmdist við tölu 24, þefaði af henni, leit upp og á húsfreyju.
"O.K. 24" húsfreyja skráði niður töluna með hraði, "þá er bara ein eftir".
Fiðrildi kom flögrandi yfir þilvegginn sem skilur að sólpalla húsfreyju og nágranna.
Stefndi beint á nef læðu, sveigði frá á síðustu sekúndu og flögraði
yfir spjöldum 27, 33 og 11.
Læða ærðist!
Stökk til og frá, hoppaði og skoppaði hist og her og
reyndi að hremma bévítans fiðrildið.
En 27, 33 og 11 greinilega lukkutölur fiðrildisins, því það slapp
undan klóm læðu slag í slag og hvarf loks norður fyrir húshornið,
þar sem læða hafði engan séns að ná því.
Spjöldin lágu eins og hráviði um allan pall.
Sum á hvolfi, önnur í ólögulegum hrúgum, nokkur höfðu
fokið út af pallinum og út á grasið í atganginum.
Læða í bandi horfði bálvond á eftir fiðrildinu, hvessti sjónum
á húsfreyju og hlammaði sér ofan á góða hrúgu af spjöldum.
MJAAAVRRRR!
Húsfreyja dæsti mæðulega.
Eitursnjalla planið ónýtt.
"Og átti bara eina tölu eftir"!
Tók eftir spjaldi sem lent hafði upp við berfættan fót hennar.
Tók það upp.
Sýndi læðu töluna.
"Hvað segirðu, er þessi líkleg"?
Læða geispaði ógurlega, lagðist á hliðina og hóf að velta sér
til og frá í spjaldahrúgunni.
DÆS-
"Jæja, en ég á máske sjens á 4 réttum" hugsaði húsfreyja vongóð.
Ægilegri hugsun laust skyndilega í koll húsfreyju.
DJÍSUSS!
Hún hafði steingleymt að taka það fram við læðu,
að hún væri að VELJA "aðaltölurnar", EKKI "Jókertölurnar"!
"Ó, mig arma", húsfreyja sópaði spjöldunum saman,
og henti þeim í ruslið.
Losaði læðu úr bandi og ýtti inn.
Hugsaði fiðrildaflóru landsins þegjandi þörfina.
Fór sjálf inn og lagði sig!
En góðar stundir, og gangi ykku ætíð vel að SPÁ í framtíðina.
Páfagaukur spáir Hollendingum sigri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.