25.4.2010 | 19:22
Víst er það mál að yrkja....
..mamma, níu ára djásninu var mikið
niðri fyrir.
"Prófa ÞÚ bara sjálf"!
"Sko, svona var okkur kennt, með
upphafsstafi, og óþarfi að láta allt ríma....
en mátt alveg láta ríma ef þú getur"!
Húsfreyja hnyklaði brýr.
Nú hafði hún kannski tekið heldur stórt upp í sig,
þegar hún sagði dótturinni að það að yrkja
ljóð væri "ekkert mál"!
Jæja, gat altént látið á þetta reyna fyrst,
rím, stuðlar og höfuðstaðir voru ekki
aðalatriði.....alla vega ekki í níu ára bekk.
Djásnið hafði krosslagt arma, horfði
þungbrýn og ábúðamikil á húsfreyju og beið.
Vorið er komið,
orðið svo hlýtt og
rauðbrystingur syngur blítt.
Það kom í morgun klukkan átta,
en mannfólkið svaf á sín grænu eyru,
næstum fast í þungum svefndróma,
uns kría í brjáluðu skapi fyrir utan glugga
ræskti sig og gargaði: KRÍ!
Svefndrukkið fólk tíndi á sig spjarir,
inniskó og sokka.
Gekk síðan glatt út í geggjað vorið.
"Sko", sagði húsfreyja rígmontin.
"Hrrrrmmmph, það er svo erfitt að semja ljóð
um vorið, ef maður er krakki, mamma", djásnið
ekki sannfært.
Vesen.
Húsfreyja varð hugsi, en lét svo flakka.
Nammið búið.
Ekki verður aftur snúið
með sælgætisátið í gær.
Nú verður út í búð aftur flúið,
bland í poka,
bland í poka!
Má ekki loka
versluninni einu á staðnum
á laugardegi.
Þetta leist djásninu mun betur á og settist niður við að yrkja:
Nammið er búið.
Alltaf klárast það.
Mig langar í nammi,
mikið nammi!
Yndislegt nammi.
"Sagði ég ekki" húsfreyja var ánægð með sitt
níu ára djásn, þótt ekki hafi henni þótt sinn
skáldskapur glæsilegur og hugsaði með sér
að hún hlyti að geta betur.
Í litunum býr ljósið.
Bjart.
Einstakt.
Umvefjandi.
Fullt af litum gleði,
kærleika,
sálarþroska.
En þá svartur?
Í honum býr sorgin.
Sorgin dökka.
Sorgin mjúka.
Sorgin sem þroskar mannsálina,
og gefur styrk.
Svartur er líka góður litur.
Húsfreyja verður víst að viðurkenna,
að það er töluvert ERFIÐARA að yrkja
ljóð, en hún taldi sjálf.
Verður víst seint talin ljóðskáld.
En máske leirskáld?
Kannski maður fljúgi
suður með sjó.
Tali við steinana
í fjörunum við vitana.
Svekki síðan útverði kríanna.
Krí, krí, krí!
Veifandi höndum,
veifandi vængjum.
Mikið djöfull vantar mig nýja gönguskó.
Jamm!
Bullandi leirskáld í síðatómískum stíl.
Skáldatilraunum húsfreyju lokið.
Djásnið þarf í kompjúterinn.
Njótið kvöldsins.
Góðar stundir.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.