21.1.2010 | 17:52
Sandkorn og sögur í eilífðinni.
Kristín mín er mesta gull
mannleg jafnt í hönd og sinni.
Við skulum bæði vakna full
vina mín, í eilífðinni.
Stálminnið húsfreyju hrökk í gírinn.
Hún hafði náð vísunni.
Eftir að hafa heyrt hana einu sinni.
Hún kvaddi þá öldnu eftir stutt orðaskipti.
Gamla konan brosti glettin og rölti áfram eftir ganginum.
Húsfreyja hafði verið að ræða við þá öldnu
um mannanöfn, og minnst á það að móðir hennar
bæri hið góða nafn Kristín.
Og sú gamla hafði mælt vísuna af vörum skýrt
og með blik í auga.
Hikaði einungis er húsfreyja innti hana eftir nafni skálds,
og mundi ekki.
"Minnissjúkdómar eru óhræsi" hugsaði húsfreyja,
og sagði það í góðu lagi þó ekki myndi hún nafn skáldsins.
En vísan er bísna góð, þó ekki kunni húsfreyja skil á
höfundi hennar, og vonar að ekki komi að sök þó
hún prýði pistil sinn með henni.
Móðir húsfreyju, Kristín kenndi húsfreyju marga
vísuna og ljóðið þá húsfreyja var lítil skotta.
Gladdist móðirin ætíð yfir því hve fljót litla skottan
hennar lærði ljóð, vísur og þulur.
Dásamaði stálminni dótturinnar, og þakkaði það
arfi frá föður og föðurafa skottu, enda þeir
fljótir að grípa á lofti stökur, ljóð og vísur og dunduðu
sér við að semja slíkt sjálfir af og til.
En það var ekki alltaf dans á rósum hjá Kristínu að eiga
stálminnuga litla skottu, því sú stutta mundi einnig
"heilu samtölin" yfir kaffibolla, ef því var að skipta.
"Leynilegu samtölin" fullorðna fólksins ekki undanskilin.
Og sú stutta var einnig spjallari mikill, og þurfti
að fá hlutina á hreint, ræða við mann og annan.
Afi og faðir húsfreyju rifjuðu iðulega upp eftirfarandi sögu:
Kristín hafði fengið eina ágæta konu í heimsókn
í eldhúsið á Eiðunum snemma sumars.
Kona sú var mikið gæðablóð, en hafði ætíð mikinn
áhuga á málum annarra, og fylgdist grannt með
gjörðum þeirra.
Þurfti síðan að ræða málin og brjóta þau til mergjar.
Og nú var sko aldeilis mikið sem þurfti að spjalla.
Kaffið rauk í bollanum, og konan stöð á öndinni af og til
í frásögninni.
Skottan hafði tyllt sér undir eldhúsborðið, með Brúna bangsa,
Hvíta bangsa og Lubba, smávegis af Gleyméreyjum og Sólfíflum
og duddaði við að skreyta "tuskuleikfélaga" sína.
Hlustaði af athygli.
Þegar faðir skottu kom heim úr vinnu stóð kona upp,
blikkaði móðurina, setti fingur á varir og hvarf á braut.
Daginn eftir á laugardegi, var öll fjölskyldan svo heima nema afi.
Önnur yngri kona, sem Kristín þekkti frá því að hún hafði
starfað í Vinnslustöðinni, mætti í þrjúkaffið.
Konan var kölluð Didda (nú verða flest öll nöfn tilbúningur einn),
og fljótlega barst talið að skemmtilegum dansleik í Samkomuhúsinu
helgina á undan.
Skottan sem var að reyna að kvelja nágrannaköttinn Spægó
á gólfinu, sperrti eyrun.....Didda....ball....vann í fiski....!
BINGÓ!
Reis upp með hraði.
"Mamma, er þetta hún Didda í fiskinum, sem fór á ballið
og kyssti hann Góa manninn hennar Jóu...og..og Jóa varð
svo reið að hún sló háhælaskónum sínum í hausinn
á Góa...að það kom ægilega mikið blóð og svo varð
læknirinn að sauma á honum hausinn...ha, mamma?
Didda var orðin blóðrauð í andliti.
Faðir húsfreyju var kominn með mergjaðan kverkaskít...
hóstaði og ræskti sig.
Móðirin, Kristín, hafði gripið hönd fyrir hjarta sér, og
horfði bænaraugum á mann sinn, sem virtist vera að kafna
á eldhúsbekknum.
Skottan leit hvasst á föður sinn, "er ekki lagi með þig, pabbi"?
"Jú..hrrummppp..huu.hu.."stundi faðirinn upp.
Didda stóð snöggt upp.
Sagðist verða að flýta sér heim.
Kristínu tókst að stama einhverju þakklæti fyrir komuna.
Foreldrarnir fylgdu Diddu fram í forstofugang.
En skottan var ekki búin.
Var ekki á þeim buxunum að láta Diddu sleppa svona vel.
"Mamma, af hverju var Didda að kyssa mann sem hún
átti ekkert sjálf".
Didda þeystist út um dyrnar á Eiðunum, og fór á blússandi
fart niður sundið að gömlu rafstöðinni og hvarf von bráðar
sjónum.
Skottan hljóp fram í dyragættina og horfði furðulostin á eftir Diddu.
"Mikið voðalega var hún Didda að flýta sér, mamma"!
Leit við.
Móðirin stóð með aðra hönd fyrir munni sér, en hin var
komin upp á enni.
Horfði örvæntingafull á 4 ára skottuna.
Faðirinn veinaði upp, og hélt um kvið sér í keng,
þar sem hann reyndi að standa á fótunum við
stofugættina.
Skottuna var farið að gruna að pabbinn væri að hlæja.
Hún varð eitt spurningamerki.
"Pabbi, sagði Didda eitthvað sniðugt"?
Faðirinn grét af hlátri og kom ekki upp orði.
Móðirin reyndi stutta stund að halda virðingu sinni í stöðunni,
en gafst upp og skellti upp úr.
"Hvað er svona skemmtilegt" vildi nú skottan fá að vita.
"Við erum bara svona glöð og kát" flissaði faðirinn á
milli hlátraskalla og þá tók skottan undir, því hlátur
pabba var svo smitandi.
Svo hlógu þau öll vel og lengi.
Afi skottu fékk svo að heyra alla sólarsöguna,
er hann kom heim af vakt í "Brasinu" um kvöldið.
Það krymti í afa er hann hló, og svo fékk "lambið hans afa"
hálfan Tópaspakka til eignar frá honum, fyrir það að
"taka svona vel á málunum"!
Skottan hafði ekki hugmynd um hvað afi hennar var að tala,
en það var aldeilis fínt að fá allt þetta Tópas.
(Húsfreyja man svo ekki eftir því að Didda hafi komið aftur í
heimsókn á Eiðana, á meðan hún bjó þar.)
En faðirinn greip skottuna í fang sér, fleygði hennir upp í loft
og sagði glaðhlakkalega: "Betri er belgur hjá, en barn"!
Skottan hafði ekki heldur hugmynd um hvað faðirinn var
að tala, en var ánægð með alla athyglina.
Já, stálminni getur komið sér vel á stundum.
En það getur verið vandfarið með slíka náðargáfu
og ætíð skyldi aðgát höfð í nærveru sálar.
Góðar stundir
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.