Færsluflokkur: Kvikmyndir
31.10.2011 | 21:06
Hvað saðð'ann?
Marinó Tý fimm ára var mikið niðri fyrir.
Enda Kafteinn Kolbeinn nýbúinn að ropa ofan
í flugvélatankinn, á hrapandi flugvélinni, með
Tinna og Tobba innanborðs, á meðan vondu karlarnir tveir
svifu til jarðar í fallhlífum.
Systurdóttir var á 200 kílómetra hraða að þýða og talsetja fyrir soninn,
því myndin var ekki með íslensku tali heldur texta.
Í þrívídd samt.
Marinó var með rödd sína stillta á HÆSTA styrk, svo
bíóáhorfendur í fimm bekkja radíus fengu "kommenta" hans beint í æð.
"Það blæðir líka úr eyrunum á mér", Væla Veinólínó ekki síður að
misbjóða viðkvæmum hlustum Marinós en Kafteins Kolbeins.
"Ó MÆ GOD", Tinni fljúgandi í loftköstum á eftir bófunum,
í brjálaðri tilraun að ná þremur bréfsnifum.
"Hvað saðð'ann, mamma"?
Það var mikið hlegið, og spennan var ærandi í bíósalnum.
Tinni og Kolbeinn ekki að klikka.
Náði húsfreyju alveg, myndin.
"Skeggjaðir hertir þorskhausar" og Rögnvaldur rauði fékk að
kenna á reiði Kolbeins.
Húsfreyja hló hátt og mikið, og skemmti sér konunglega.
Tíu ára djásnið vissi ekki góða stund, hvort hún ætti að vera vandræðaleg
yfir háværum kommentum Marinós eða gassahlátri móðurinnar,
en ákvað að lokum að gleyma sér í kvikmyndinni.
Systurdóttir þýddi og talsetti í gríð og erg.
"Ég skil núna, hvað þú gekkst í gegnum með mig, þegar þú
bauðst mér á Disneyteiknimyndirnar hér í den, Sigga, og þurftir að þýða
hverja einustu setningu", systurdóttir þurr í munni og sár í
hálsi í bíólok.
Það hlakkaði örlítið í húsfreyju, sem enn er að berjast við
krónískt hæsi frá árunum 1990-1995 eða 6 , þegar
einhverjum snillanum í kvikmyndabransanum
datt LOKS í hug að "talsetja" Aladdin.
Sérlegur "talsetjari" systurdóttur þessi ár, þegar Disneyfabrikkan
ungaði út nýjum teiknimyndum jafnt og þétt, einni eða tveimur á ári.
Hélt uppi Apoteki Þorlákshafnar árum saman með
Strepsils hálstöflukaupum, húsfreyja.
Fór með einn Strepsilspakka á sólarhring, í heila viku eftir "talsetningu"
fyrir systurdóttur.
Og stundum dugði ekki ein bíóferð...
"Sidda mín, þetta var frábær mynd, eigum við ekki að fara
aftur næsta laujardag"?
Hefur húsfreyja minnst á það , að henni finnst "íslensk talsetning"
á barna- og teiknimyndum, einhver mesta snilld sem hefur
verið upp fundin í voru litla landi.
En draumar og vonir húsfreyju um frama sem heimsfræg söngkona
dóu drottni sínum, steindrápust, og voru jarðaðar þessi
"talsetningarár" hennar með systurdóttur.
Hins vegar er systurdóttir eldheitur áhugamaður um kvikmyndir í dag,
allt frá teiknimyndum upp í drama, grín og morðgátur.
Kannski á húsfreyja örlitla hlutdeild í áhuga hennar þar með,
fyrst hún fórnaði frægð og frama og RÖDD sinni fyrir
gleði lítillar stúlku í bíó.
Hver veit?
En vissulega doldið GAMAN að systurdóttir skyldi
þurfa að "talsetja" sjálfan Tinna fyrir Marinó.
Finnst húsfreyju..hehehehehe.
Hefði viljað heyra systurdóttur þýða og talsetja
enska orðasambandið hans Kaftein Kolbeins:
"Þúsund skrykkjóttar tindabykkjur í þorskavíti".....hehehe.
Kvikmynd þessi um Tinna og félaga er tær snilld að mati húsfreyju,
svo kíkið endilega í bíó.
EN AÐVÖRUN: Fólk með VIÐKVÆM eyru ætti að
hafa með sér bómullarhnoðra...til að stöðva
"eyrnablæðinguna".
Góðar stundir og látið ekki frostið bíta ykkur í tærnar.
Kvikmyndir | Breytt 4.11.2011 kl. 20:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.6.2011 | 21:01
Glaðlegur hrærigrautsstíll...
... þá aftur kominn á miðbæinn?
Þetta er ætíð vinalegt götuhorn í minningu
húsfreyju, enda dvaldi hún mörgum stundum
í "gamla" Nýja Bíó, hér á árum áður, þá þangað
bárust bandarískar og evrópskar kvikmyndir jafnt og þétt,
lágmark 1-3 árum eftir að þær höfðu verið
frumsýndar á erlendri grund.
Myndum sem síðan var varpað á hvíta tjaldið,
eldheitum kvikmyndaunnendum sem húsfreyju
til mikillar gleði og ánægju.
Það var eitthvað hlýlegt og vinalegt að standa
í poppkornsröðinni í anddyrinu, "popp og kók, takk",
og rölta svo í sæti sín í ískrandi bekkjunum,
"númeruðum" að sjálfsögðu og anda að sér
rómantík kvikmyndasalarins fyrir sýningu.
Síðan hófst sýningin.
Engar auglýsingar, alltaf hlé.
Mátti REYKJA, og kvikmyndin oft öll sveipuð
dulúðlegri reykjarhulu, sem gerði hryllinginn
hryllilegri, sorgina þungbærari, sólskynið daufara,
regnið og vonleysið áþreifanlegra, gleðina reykingatengda,
hvítu kjólana gráa í kvikmyndabrúðkaupunum, og grínið
nánast lífshættulegt, þegar sígarrettureykurinn
sogaðist djúpt ofan í lungun, í miðri hlátursroku.
Stóð oft á öndinni, húsfreyja, af óbeinum reykingum
í bíó hér í den.
Angaði eins og keðjureykingamaður, þegar heim kom.
Aðrir tímar....den tid den sorg.
Man þá húsfreyja eina góða ferð í Nýja Bíó, þá hún var
sextán ára fljóð, ný byrjuð að stunda nám í M.R.
Þær höfðu rifið sig af stað eftir kvöldmat, húsfreyja
og tvær vinkvenna hennar, niður í Nýja Bíó.
Það var kominn nóvember, hráslagaleg slydda,
sem smaug ofan í hálsmálið á þykkum vetrarkápum
þeirra og það var kalt....nístingskalt.
Samt skárra að skreppa í bíó, en að hanga heima
og reita hár sitt í örvæntingu yfir rúmfræði, stafsetningareglum
og enskum stíl.
Í bíó var enginn mættur, er stöllurnar þrjár komu á svæðið.
Báðu um þrjá miða í bekk fyrir miðju, sæti sömuleiðis fyrir miðju
í bekknum.
Vestri með Lee Marvin í aðalhlutverki.
Poppið og kókið keypt.
Enginn annar mættur, og 5 mínútur í sýningu.
Fór sextán ára kjánahrollur um vinkonurnar:
"Verðum við ALEINAR í bíó", hvísluðust á og flissuðu
vandræðalega.
Þær drifu sig samt inn í salinn, litu á númerin á
bíómiðunum og fundu bekk sinn og settust
svo fyrir miðju af handahófi, enda öll önnur sæti
laus, svo ekki gat nákvæmt sætanúmer skipt máli,
töldu þær.
Þremur mínutum seinna birtust þrjár unglingsstúlkur
á svipuðu reki og stöllurnar.
Þrekvaxnar og í þykkum vetrarkápum, líkt og húsfreyja og
hennar vinkonur.
Þær þrekvöxnu gengu beint að bekk vinkvennanna,
með miða sína á lofti.
Stöllurnar stóðu upp og hleyptu þeim fram hjá,
sem var töluvert bras, því þykkar blautar kápurnar,
voru fyrir, kræktust saman á tölum og beltum.
En að lokum voru þær þrekvöxnu sestar,
þétt upp við húsfreyju og vinkonur.
"Sex í bíó, þétt saman, á sama bekk" hugsaði
húsfreyja og glotti við tönn.
Sýning um það að bil að hefjast þegar ein af
þrekvöxnu skvísunum stóð upp:
" Heyriði, þið eruð í sætunum okkar"!
Valdsmannleg og ákveðin, og sýndi húsfreyju og
vinkonum bíómiða sinn.
Mikið rétt.
Húsfreyja og stöllur urðu að hleypa þeim þrekvöxnu
aftur til baka...með töluverðu kápubrasi, og flytja
sig tvö sæti til vinstri, svo þær þrekvöxnu fengu
sín RÉTTU sæti hægra megin við þær...ÞÉTT upp við þær.
Húsfreyja sem er fljót að sjá húmorinn í flestum
aðstæðum, var farin að hlægja óstjórnlega.
Tíu augu störðu á hana furðu lostin.
"Gott að hafa sætanúmerin á hreinu og RÉTT sæti í svona
fullu bíói" , tókst húsfreyju að stynja upp og benda
út í tóman salinn.
Allar skvísurnar skelltu upp úr, og þær þrekvöxnu urðu
hálf kindarlegar í framan, en hlógu dátt samt.
Ljósin slökkt og sýning hófst.
Marvin skemmtilega ófríður á tjaldinu.
Fimm mínútum seinna opnuðust dyrnar á
kvikmyndasalnum.
Lokuðust.
Skruðningar, pústrar, bölv og dæs.
Maður í þykkri rennblautri úlpu, sem angaði eins
hann hefði fengið hana að láni uppi í Hvalstöð eftir
hvalskurð, velt henni síðan upp úr lýsi og slori,
settist beint fyrir framan lágvöxnustu, þrekvöxnu
stúlkuna.
Manninn var tveir metrar á hæð, og breiður eftir því.
Stúlkan sá hvorki tangur né tetur af Marvini.
Þær þrekvöxnu fóru aftur til ferða, en nú fluttu þær sig
fimm bekkjum neðar.
Húsfreyja og stöllur sátu sem fastast, og reyndu að
anda með munninum.
Marvin skaut fjóra með tveimur skotum...drap þá alla.
Maðurinn í úlpunni góðu, ók sér í sætinu, reyndi að
troða höndum niður í rassvasa.
Náði taki á kveikjara, svo rettum.
Kveikti í.
Húsfreyja fílaði sig sem lambakjötslæri í
taðreykskofa.
Marvin drap þrjá.
Maðurinn drap í, og fór í það að troða sígarrettum og
kveikjara aftur í rassvasa....as...mas...bras...KRATSJÚ....HLUNK!
Maðurinn seig snögglega niður.
Hressilegt bölv....."helv...djö....sætið er brotið".
Manninum tókst með erfiðismunum að komast upp úr
brotnu sætinu, bölvandi og ragnandi.
"Við erum að reyna að HORFA á bíómynd hérna" gall í
einni af þeirri þrekvöxnu.
"Afsakið, helv...sætið brotnaði" rumdi í risanum.
Hann ráfaði úr sætaröðinni, og rölti niður í næsta bekk
fyrir framan þær þrekvöxnu.
Loftræsting í lagi dældi "anganum" af úlpunni til
þeirra þrekvöxnu, á meðan Marvin kyssti mikið málaða
en fáklædda konu á bar og drakk viský af stút.
Pískur og andköf.
Svo kom hlé.
Þær þrekvöxnu stóðu upp í snatri,
sveipuðu kápum sínum þétt að sér.
Sú hávaxnasta af þeim, var eitthvað föl á vangann,
kúgaðist og hóstaði....."..hvaða lykt..ég er að farast.." hvíslað.
Þær strunsuðu fram í anddyri, og sáust ekki meir.
Húsfreyja var komin með þrautir í magann af innibyrgðum
hlátri, en náði að þrauka út myndina í fjögra manna bíói þessu.
Hvernig myndin endaði, eða hve marga Marvin drap,
hefur hún ekki hugmynd um enn þann dag í dag.
Því síður hvað myndin hét.
Fín bíóferð eigi að síður.
En vel að búið er að endurbyggja húsin í Austurstræti.
Húsfreyja bregður sér þá niður í miðbæ í sumarfríi sínu,
og kíkir á dýrðina.
Kannski þeir endursýni Lee Marvin........
Góðar stundir og enn betri bíóstundir.
Ný götumynd blasir við | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kvikmyndir | Breytt 10.7.2011 kl. 12:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)