Færsluflokkur: Íþróttir
25.6.2012 | 00:08
Hann þarf að komast á vinstri löppina....!
.....,sjónvarpsmanni var mikið niðri fyrir, er hann
mælti þau fleygu orð.
"Þvílík háheilög sannindi" hugsaði húsfreyja hróðug og glotti grimmt,
þar sem hún sat og "hlustaði" á lýsingu fótboltafróðra
manna á kreppu-flatskjánum sínum.
Húsfreyja ELSKAR að "hlusta" á lýsingar fótboltaleikja á skjánum.
Þar þeysa menn um víðan völl í orðsnilld og íslensku tungutaki,
svo unun er á að heyra.
- "Englendingar standa og veifa hendinni", sjónvarpsmenn létu hvergi
deigan síg í lýsingunni.
"Og Englendingar eru þá allir "handalausir" nema einn,
sem aðeins hefur EINA" hló húsfreyja hið innra með sér, "og henni
veifa þeir grimmt....allir sem einn".
- "Mér finnst að skyttur eigi að "hitta" markið þegar þeir eru
komnir inn fyrir marklínu", sjónvarpsmaður sár yfir getuleysi leikmanns
við að skora.
Húsfreyja veinaði af hlátri.
- "Carrol er að reyna að koma inn í leikinn".
"Ekki seinna vænna", hugsaði húsfreyja, "seinni hálfleikur hafinn,
og andskotans maðurinn inni á vellinum, en utan leikjar"!
- "Þeir verða að "taka boltann niður", þeim hefur tekist það
einu sinni á síðustu 10 mínútum", sjónvarpsmaður ábúðarfullur.
"Ljótt ef boltinn er bara á sveimi yfir höfðum leikmanna", húsfreyja
var rasandi á 10 mínúta flugi fótboltans.
En boltinn hélt áfram að fljúga samkvæmt lýsingu:
- "Boltinn er að rísa yfir markið...margar mannhæðir".
"Þeir hafa líklega dælt "gasi" í helvíska tuðruna" var álit húsfreyju.
- "Englendingar aldrei líklegri til að" búa eitthvað til" þarna frammi",
sjónvarpsmaður, reyndi að vera jákvæður um frammistöðu breskra.
Húsfreyja var að míga á sig af hlátri......"hvað voru breskir
að bardúsa í miðjum fótboltaleik?
-"Hann er allt of HEITUR", húsfreyja missti af því hvort verið
væri að ræða boltann eða leikmann.
- "Menn hafa átt erfitt með að "fóta" sig allan leikinn",
húsfreyja var komin í keng af hlátri...."atvinnumenn
í FÓTbolta í erfiðleikum með að FÓTA sig"!
-"Balotelli er dálítið hissa"....."engin furða" hugsaði
húsfreyja, "ef færustu fótboltamenn heims fóta sig ekki
á fótboltavellinum"!
- "Þarna er MAAAAARK......hann er rangstæður, já" mæðan
í rödd sjónvarpsmanns var nánast áþreifanleg!
- "Englendingar búnir að vera mjög "þéttir" í leiknum".
Eina hugsun húsfreyju við þessa yfirlýsingu var:
"Einhvern tímann var sungið á öldum ljósvakans:
"NÚ ER ÉG ÞÉTTUR, OG ORÐINN FURÐU LÉTTUR,
ÉG ER Í OFSASTUÐI OG ELSKA HVERN SEM ER".
En leikurinn var ekki búinn.
Og sjónvarpsmenn fóru á kostum:
- "Hér kom stórkostlegt skot, sem leit kannski ekki út
fyrir að vera það".
Og síðan: -" Þarna er hann kannski ekki að "miða" á markið"!
"Heldur HVERT og á HVAÐ"??, húsfreyja náði vart andanum svo mikið
hló hún.
Þegar sjónvarpsmaður skellti sér síðan í lýsingu á
"arkitekt" sem skyndilega birtist á vellinum og hóf
að teikna upp "sóknina", var húsfreyju allri lokið,
svo hún lagði á flótta inn á bað og fór í sturtu.
Það síðasta sem hún heyrði var:- "Hann tekur sér nægan
tíma í markinu, án þess að vera of augljós að tefja tímann...."
Fótbolti er tær SNILLD!
Að lýsa fótboltaleik sérstök NÁÐARGÁFA.
Húsfreyja vill þakka íþróttasjónvarpsmönnum RÚV kærlega fyrir
sérdeilis frábæra kvöldstund!
Góðar fótboltastundir.
Ítalir höfðu betur í vítaspyrnukeppni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 00:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.1.2012 | 21:08
Súrnar nú norskum...
.. í geði, og gerast þulir þeirra tapsárir og tannhvassir.
Skiljanlegt.
Alltaf fúlt að tapa.
Húsfreyja nagaði naglabönd sín af æsingi og
spennu, og reitti hár sitt af örvæntingu lengi vel
yfir handboltaleik þessum millum Frónbúa og
Norðmanna í gærkveldi.
Taugar hennar voru úrbræddar og maginn í hnút.
En svo komu "srákarnir okkar" með það sem hún hafði
beðið eftir: Myljandi baráttugleði og snilldartakta á
síðustu mínútunum.
Húsfreyja er langt frá því að vera snilli í handboltareglum,
en eigi gat hún séð, að maður sem snéri baki í markið,
ætti víti skilið.
En hvað veit hún?
Kannski eru reglur breyttar og dómarar danskir að
skíta upp á bak, með því að dæma ekki norskum
"afturábak-mönnum" víti?
Baunar í dómarastétt þar með gengnir "þeim í neðra"
á hönd, og farnir leyfa "þrælaþjóðinni og óbermunum"
uppi á litla Fróni að berja á "eðal herraþjóðinni" ,Norðmönnum og sigra
þá, með því að hafa af þeim víti....eða hvað?
Ekki gott að segja .
Sjálf telur húsfreyja, að "strákarnir okkar" hafi hreinlega
tekið norsarana í nefið á síðustu mínútum leiksins,
og sigurinn því þeirra, hvað sosum öllum "afturábak-vítum" líður.
Góðar stundir og njótið handboltakvöldanna.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.9.2011 | 19:55
Að þjappa sér saman í andlitinu?
"Hvað sagði Eiður Smári" húsfreyja var farin að halda
að hún hefði orðið fyrir heyrnartjóni, þegar hún mætti á Melavöllinn
nú á dögunum, að fylgjast með leik ÍBV og KR.
"Það á bara ekkert að tapa fyrir leiðinlegu norsku liði",
bóndi sár yfir tapi sinna manna.
"En sagði Eiður Smári að "þeir yrðu að þjappa sér saman í
andlitinu......hvað þýðir það eiginlega"??, húsfreyja var engu nær.
Bóndi svaraði ekki svona " skiptir ekki nokkru máli-spurningu" húsfreyju.
"Djö... hugsaði húsfreyja, ekki nóg að ég er hundsvekkt yfir
tapi strákanna okkar, ég er líka hætt að skilja hvað þeir segja".
"Hvað getur það bætt fótboltaleik okkar manna, að verða
"þéttari, þrýstnari eða útroðnari" í ANDLITINU", hugsaði
húsfreyja örvæntingafull.
Hún gjóaði augum á bónda sinn....ætti hún að reyna að spyrja
hann betur út í þetta að "þurfa að þjappa sér betur saman í andlitinu"?
Neipp, bóndi var horfin á vit frétta af rosalegum fellibylum og flóðum í henni
Ameríku. Fimmtíu dánir í því fárviðrinu. Köld hönd dauðans strauk eitt
augnarblik yfir hjarta húsfreyju...brrrrrrr....
Neipp, ekki vert að vera að trufla bónda, enda farinn að ræða við 10 ára
djásnið um Hrútatungurétt, þar sem hann hafði á árum áður með Sigurði afa
sínum mætt, og tekið fé traustu taki og dregið í dilka.
Húsfreyja ákvað að kíkja í orðabók sína.
Sei, sei jú, hún hafði munað rétt þýðingu sagnarinnar að þjappa.
En rak síðan augun í þjappa að e-u sem þýðir að þjarma að
e-u eða kreista e-ð eða e-n óþyrmilega.
"Jeminn, varla vill Eiður Smári að liðsmenn berji hvorn annan óþyrmilega
í andlitið, eða kreisti, til þess eins að þeir nái að taka sig saman í andlitinu,
þjappa sér saman og sigra norsara í fótbolta eftirleiðis og um alla
ókomna tíð"!
Húsfreyja var við það að fá höfuðverk yfir þankagangi þessum.
"Það yrði þá ljóta liðið sem keppti fyrir hönd okkar Frónbúa"
hélt húsfreyja pælingum sínum, "allir bláir og marðir í andliti,
með fjólublá glóðaraugu og sprungnar varir".
"Jæja, þeir hætta þá kannski við helvískan "lesturinn"
í miðjum leik, ef augu þeirra eru stokkbólgin og þrútin,
og dunda sér við að lesa orðið "leikinn" RÉTT uppi í rúmi,
þegar þá tekur að syfja"( sbr. "hann er að lesa leikinn rétt"...
vinsæl setning hjá snjöllum fjölmiðlamönnum), hugsaði húsfreyja
með sjálfri sér og glotti.
Hehehehehe..... húsfreyja stóðst ekki mátið.
Hefur bísna gaman að málfari fótboltakappa og þeirra sem
fótboltaleikjum lýsa í fjölmiðlum.
Orðaleppar þeirra eru algjör snilld, og oft æði snúið að
ná að tengja þá við FÓTBOLTALEIK/KNATTSPYRNU.
Gaman að þessu.
En húsfreyja vonar eigi að síður, að Eiður Smári láti vera
að berja mann og annan í andlitið í okkar frónverska liði,
og vonar að hann hafi aðallega verið að ræða um,
að hann og strákarnir okkar yrðu að "þjappa sér betur saman"
og jafnvel að "taka sig saman í andlitinu"
til að eiga einhvern sjens á að sigra norska frændur vora.
Góðar stundir og góða helgi, og í guðanna bænum þjappið ykkur ekki saman
í andlitinu.
Grátlegt tap fyrir Noregi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Breytt 23.9.2011 kl. 16:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)