18.12.2008 | 17:36
Draugasaga á jólum.
Svo bar við á því herrans ári 2007,
þá líða tók að jólum, að móðir
húsfreyju fékk mikla hugljómun.
Ákvað hún, búsett í Þorlákshöfn,
að fara til ferða til borgarinnar við
sundin bláu, og versla sér eina
fína, flotta og spánýja spariskó.
Ekki nóg með það, sei sei nei.
Æskuvinkona móður var búin að
tryggja sér tvo miða á jólatónleika
karlakórsins Fóstbræðra, svo nú átti
að mæta eftir skókaup á tónleikana
með múttu húsfreyju. Og múttan síðan að
fá gistingu hjá æskuvinkonunni, en halda heim
á leið aftur daginn eftir.
Þar sem móðir húsfreyju býr í sama húsi
og systir í Þorlákshöfn ásamt þremur
börnum, lagði múttan áætlunina fyrir
dóttur sína áður en hún hélt af stað í
langferð þessa.
Systir í Þorlákshöfn hélt það ekki mikið mál,
að stússast í kringum sín börn "ein", einn sólarhring.
Svo móðirin hélt af stað um hádegisbil með rútu,
yfir fjallveginn mjóa, Þrengslin, og komst aftur
til byggða stundu seinna í höfuðborginni.
Þar verslaðir fínir spariskór, kaffast á kaffihúsum
með æskuvinkonu, snæddur eðalkvöldmatur og
svo Fóstbræðrasöngurinn tekinn með stæl.
En þá búa átti múttunni rúm í húsum
æskuvinkonu, birtist óvænt dóttir æskuvinkonu.
Sú býr austan fjalls og var á heimleið, og það var
sko ekki mikið mál að skutla henni Stínu heim í
Þorlákshöfn svona í leiðinni.
Svo mútta húsfreyju pakkaði niður nýju
spariskónum í hasti, kvaddi æskuvinkonu og
hélt heim á leið.
Var þangað komin upp úr hálftíu um kvöldið,
hvergi ljós nema í fremri forstofu svo múttan
brá sér í smá gauf og gutl á salerninu,
háttaði sig í sinn hvíta hnésíða silkináttserk
og skellti sér inn í rúm inni í sínu stóra
og fína forstofuherbergi.
Kveikti á sjónvarpinu.
Er þá ekki þessi fína konumynd að byrja.
Mútta húsfreyja kemur sér vel fyrir og er brátt
kominn á bólakaf í konumyndina.
En einu hafði hún steingleymt.
Hún hafði illilega gleymt að sinna "tilkynningaskyldu"
til systur, um breyttar áætlanir og komutíma.
Víkur nú sögu til systur í Þorlákshöfn.
ALEINNI heima með börnin.
Hún búin að sinna börnum sínum, 5,7 og 9 ára,
og aldrei þessu vant, kemur hún þeim óvenju
snemma í ró, og allt liðið steinsofnað klukkan níu
um kvöldið.
Hún læðist fram í eldhúsið, gengur frá eftir
kvöldmatinn, fær sér kaffi.
En dettur svo í hug að kíkja á sjónvarpið frammi
í stofu um tíuleytið.
Er þá ekki þessi líka fína konumynd að byrja.
Systir dæsir af ánægju og kemur sér vel fyrir framan sjónvarpið.
Þá þessari líka fínu konumynd er lokið, er systir
orðin skraufþurr í kverkum.
Best að skella sér fram í eldhús að fá sér að drekka.
Aldimmt er í húsinu fyrir utan smátýru í
eldhúsi, svo bjarmann af ljósinu í fremri
forstofunni.
Þegar systir er að feta sig fram úr stofunni í
myrkrinu, verður henni litið fram í innri forstofu.
Aaaaaaaaarrrrrgh!!
Hvít vera kemur svífandi hægt og tignarlega
eftir innri forstofunni inn í borðstofuna.....úúúú.
Systir frýs föst við stofugólfið.
DJÍSUSS!
Hrikalegt!
SVAÐALEGA SVAKALEGT!
Hún orðin bullandi SKYGGN...og það ALEIN heima með börnin.
"Hvaða hryllilegi óvættur er að ásækja mig"? hugsar
systir í argapanikk.
Púlsinn er kominn upp í 200 slög á mínútu hjá systur,
hún er kaldsveitt og hefði migið á sig af hræðslu,
hefði hún ekki verið svona skrælnuð og þurr eftir
sjónvarpsglápið.
Henni tekst að safna örlitlum kjarki og spyr "draugsa"
skjálfandi röddu: "Ertu DRAUGUR"?
"Neihei, ég er bara þyrst og ætla að fá mér eitthvað
að drekka frammi í eldhúsi" svaraði vofan snöggt.
Og framhjá systur sveif "múttan", hvorki steindauð þá
né heldur er hún framliðin í dag.
Systir var rasandi yfir "draugagangi" múttu sinnar,
og var svo hálfa nóttina að ná sér niður eftir skelfinguna.
Af þessu má svo læra tvennt.
Í fyrsta lagi: Þá horft er á fínar konumyndir skyldi ætíð
gæta þess að hafa "nægan vökva" til drykkjar við hendina.
Í öðru lagi: ALDREI, ekki undir neinum kringumstæðum skyldi
maður gefa móður sinni "hvíta, hnésíða náttserki í afmælisgjöf.
Góðar og júfar stundir á jólaaðventu.
Athugasemdir
Góð frásögn
Heiður Helgadóttir, 18.12.2008 kl. 19:29
skemmtileg saga
Sigrún Óskars, 21.12.2008 kl. 08:03
Þakka ykkur ljúfastar.
Sigríður Sigurðardóttir, 21.12.2008 kl. 11:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.